Hótelfélagið Berjaya Hotels Iceland hf. hefur nýtt samningsbundinn forleigurétt sinn við Reiti fasteignafélag að fasteignunum að Suðurlandsbraut 2, þar sem Hilton Reykjavík Nordica hótel er til húsa, og að Nauthólsvegi 52, þar sem Berjaya Reykjavík Natura hótel er staðsett.
Reitir tilkynntu fyrir tæpum mánuði síðan um að fasteignafélagið og Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, hefðu undirritað leigusamninga til 17 ára um fasteignirnar að Suðurlandsbraut 2 og Nauthólsvegi 52 sem hýsa hótelin Hilton Reykjavik Nordica og Reykjavík Natura sem innihalda samtals 470 hótelherbergi.
Reitir tilkynntu samhliða um að til stæði, í samvinnu við Íslandshótel, að ráðast í endurbætur á hótelunum yfir næstu tvö og hálft ár. Reitir áætluðu að framkvæmdakostnaður vegna þessara endurbóta verði um 3 milljarðar króna.
Íslandshótel hefðu tekið við rekstri hótelanna þann 1. október næstkomandi ef núverandi leigutaki, Berjaya Hotels Iceland, hefði ekki nýtt sér ekki forleigurétt sinn.
„Berjaya hefur tilkynnt Reitum formlega um ákvörðun sína og vinnur nú í nánu samstarfi við Reiti að því að ljúka ferlinu,“ segir í tilkynningu Berjaya.
„Berjaya lítur til framtíðar með jákvæðum hug og hlakkar til að halda áfram farsælu og árangursríku samstarfi við Reiti. Félagið er staðráðið í að halda áfram að veita hágæða þjónustu á þessum lykil hótelstaðsetningum.“
Berjaya Hotels Iceland, sem hét áður Icelandair Hotels, rekur 13 hótel víðsvegar um landið undir sjö mismunandi vörumerkjum. Starfsemin samanstendur einnig af 10 veitingastöðum og þremur heilsulindum.