Ben Bernanke, Douglas Diamond og  Philip Dybvig deila verðlaunum í hagfræði í nafni Alfred Nobel í ár fyrir rannsóknir sínar um bankakerfi og fjármálakreppur. Þeir hafa verið í fararbroddi á þessu sviði frá því snemma á níunda áratugnum samkvæmt tilkynningu verðlaunanefndarinnar.

Bernanke var seðlabankastjóri Bandaríkjanna á árunum 2006 til 2014. Rannsóknir hans á orsökum kreppunnar miklu á fjórða áratug síðustu aldar er getið sérstaklega af verðlaunanefndinni. Samkvæmt rannsóknum Bernanke áttu áhlaup á banka stóran þátt í að auka dýpt og lengd kreppunnar. Gjaldþrot banka hafi dregið úr möguleikum til að veita útlán til arðbærra verkefna sem gert hafi illt verra. Rannsóknir Bernanke mótuðu mjög viðbrögð bandarískra stjórnvalda og annarra í fjármálakreppunni á árunum 2007 til 2009.

Verðlaunahafarnir munu deila með sér tíu milljónum sænskra króna, jafnvirði um 128 milljóna íslenskra króna.

Verðlaunin eru ekki hluti af upphaflegu Nóbelsverðlaununum sem Alfred Nobel gat um í erfðaskrá sinni og voru fyrst veitt árið 1901. Verðlaunin í hagfræði voru fyrst veitt árið 1969 í tilefni af 300 ára afmæli sænska seðlabankans ári fyrr.