Aðalmeðferð fór fram í vikunni í máli Arion banka gegn Magnúsi Ólafi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra United Silicon. Bankinn krefst þess að sér verði dæmd heimild til að gera fjárnám í fasteign Magnúsar á Kársnesi samkvæmt tryggingarbréfi sem Tomahawk Development á Íslandi hf. (TDÍ) gaf út. Forstjórinn fyrrverandi krefst á móti sýknu meðal annars á þeim grunni að bankinn hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtuna.
Um er að ræða örlítinn anga af því lánsfé sem Arion banki veitti Sameinuðu Sílikoni og tengdum félögum. Þegar verksmiðjan fór í þrot lýsti bankinn 9,5 milljarða króna kröfu í búið. Þegar bankinn gekk að veðum sínum var bókfært virði þeirra 6,5 milljarðar króna en síðastliðin tvö ár hefur það verið fært niður um samtals 5 milljarða króna. Í ársreikningi síðasta árs var eignin metin á 1,6 milljarða króna en það endurspeglar verðmæti lóðar og endursöluvirði tækja. Neikvæð áhrif á rekstur síðasta árs námu 1,4 milljörðum.
TDÍ var stofnað í apríl 2009 í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu kísilvers í Helguvík. Téður Magnús var annar stofnenda, átti 73,5% hlut í því auk þess að hafa á hendi framkvæmdastjórn og prókúru. Í október 2016 gaf félagið út tryggingarbréf fyrir öllum skuldum við bankann sem komið var fyrir á fyrsta veðrétti fasteignar hans, Huldubraut 28 í Kópavogi.
Yfirdráttarheimild TDÍ var fimm milljónir króna og í maí 2017 var búið að nýta 4,2 milljónir af henni. Í byrjun þess mánaðar voru um 1.400 þúsund krónur greiddar inn á hana en meðal þess sem deilt er um í málinu er hvort umrædd greiðsla hafi átt að vera fullnaðargreiðsla eður ei. Nánast jafn harðan og greitt hafði verið inn á yfirdráttinn var dregið á lánalínuna að nýju og upphæðin lögð inn á Magnús. Það hélt áfram það sumarið.
Greitt inn á reikning Magnúsar
Það er sennilega flestum í fersku minni að þá um sumarið fór að halla verulega undan fæti í rekstri verksmiðjunar og fékk Sameinað Sílikon ehf. heimild til greiðslustöðvunar í ágúst það ár. Um svipað leyti og hún var framlengd féll yfirdráttarheimild TDÍ niður án þess að til framlengingar kæmi. Hafði hún þá nánast verið fullnýtt. Það er skemmst frá því að segja að TDÍ greiddi ekki umrædda skuld og var reikningnum lokað í upphafi árs 2018. Um svipað leyti sendi bankinn Magnúsi innheimtubréf, sem ekki var svarað, og hóf í kjölfarið að reyna að birta honum stefnu til að hann hefði aðfararhæfan dóm til fjárnáms í veðinu.
„Í byrjun árs 2018 var reynt að birta stefnu hér heima án árangurs. Bankinn leitaði því til sýslumannsins á Suðurnesjum en sá hefur samskipti við önnur lönd vegna stefnubirtinga á erlendri grund. Það var tvívegis reynt að birta stefnu í Danmörku en þá fékkst veður af því að hann væri fluttur til Spánar. Því var reynt að stefna á Spáni. Ekkert af þessu tókst og var stefnan því auglýst í Lögbirtingablaðinu,“ sagði Ingvar Ásmundsson, lögmaður bankans, í málflutningsræðu sinni. Það þarf vart að taka það fram að Magnús var ekki mættur í dómsal og gaf því ekki aðilaskýrslu.
Reglulega að finna á dagskránni
Huldubraut 28, sem yrði andlag fjárnáms falli dómur Magnúsi í óhag, keypti Magnús árið 2015 af Ólafi Ólafssyni og eiginkonu hans. Um svipað leyti og rekstur verksmiðjunnar stöðvaðist reyndi hann að selja eignina en ásett verð var 150 milljónir króna. Það gekk ekki og var hún því um skeið leigð út á Airbnb. Síðasta vor var hún auglýst til langtímaleigu fyrir 550 þúsund krónur mánaðarlega. Nafn Magnúsar hefur reglulega verið að finna á dagskrá dómstólanna undanfarin ár en þrotabú Sameinaðs Sílikons krafðist þess meðal annars að hann yrði dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna meintra fjársvika. Þá tók forstjórinn fyrrverandi ekki til varna og var endurupptökubeiðni hans hafnað. Að auki stendur yfir rannsókn á mögulegri refsiverði háttsemi í aðdraganda rekstrarstöðvunar kísilversins.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .