Ný­sjá­lenski þjóðar­sjóðurinn, NZ Super Fund, sem stýrir eignum upp á 76 milljarða ný­sjá­lenskra dollara (5472 milljarða ís­lenskra króna), telur að evrópskir hluta­bréfa­markaðir muni skila meiri ávöxtun en bandarískir á næsta ára­tug.

Brad Dunstan og Will Goodwin, sam­stjórn­endur fjár­festinga­sjóðsins, segja að sjóðurinn sé nú í „löngu“ sniði í Evrópu en „stuttu“ í Bandaríkjunum, byggður á verðmati hluta­bréfa.

Í lok júní var sjóðurinn í 2 pró­sent yfir­vigt í Evrópu en 3,5 pró­sent undir­vigtar í Bandaríkjunum.

„Við metum evrópsk hluta­bréf undir sann­gjörnu verði en bandarísk hluta­bréf sem yfir­verðlögð og teljum að á næsta ára­tug muni það jafnast út,“ segir Dunstan við Financial Times.

NZ Super Fund hefur skilað yfir 10 pró­senta ár­legri ávöxtun frá stofnun árið 2003 og er sam­kvæmt gögnum Global SWF besti árangur þjóðar­sjóðs heims síðustu tvo ára­tugi.

Dunstan segir að lykillinn sé svo­kölluð „to­ta­l port­folio“-að­ferð, þar sem áhætta er metin á heildar­grunni frekar en með föstum hlut­föllum milli eigna­flokka.

Þannig geti sjóðurinn brugðist hratt við breyttum markaðsaðstæðum og tekið skýra af­stöðu þegar verðlag gefur til­efni til.

Vilji sjóðsins til að fjár­festa í Evrópu nær einnig til einka­fjár­festinga.

Will Goodwin, fjár­festinga­stjóri sjóðsins, segir að sjóðurinn sé í leti að „ungum og metnaðar­fullum stjórn­endum“ sem hann gæti átt stóran hlut hjá og byggt upp sterkt sam­starf með.

Um 5 pró­sent af eigna­safni sjóðsins eru nú í einka­fjár­magni en Goodwin segir að hann búist ekki við að sá hluti verði mjög stór til framtíðar. Sumir einka­fjár­festinga­sjóðir standi nú frammi fyrir þrýstingi þar sem verðmat eigna þeirra hefur ekki staðist raun­veru­leikann á mörkuðum.