Nýsjálenski þjóðarsjóðurinn, NZ Super Fund, sem stýrir eignum upp á 76 milljarða nýsjálenskra dollara (5472 milljarða íslenskra króna), telur að evrópskir hlutabréfamarkaðir muni skila meiri ávöxtun en bandarískir á næsta áratug.
Brad Dunstan og Will Goodwin, samstjórnendur fjárfestingasjóðsins, segja að sjóðurinn sé nú í „löngu“ sniði í Evrópu en „stuttu“ í Bandaríkjunum, byggður á verðmati hlutabréfa.
Í lok júní var sjóðurinn í 2 prósent yfirvigt í Evrópu en 3,5 prósent undirvigtar í Bandaríkjunum.
„Við metum evrópsk hlutabréf undir sanngjörnu verði en bandarísk hlutabréf sem yfirverðlögð og teljum að á næsta áratug muni það jafnast út,“ segir Dunstan við Financial Times.
NZ Super Fund hefur skilað yfir 10 prósenta árlegri ávöxtun frá stofnun árið 2003 og er samkvæmt gögnum Global SWF besti árangur þjóðarsjóðs heims síðustu tvo áratugi.
Dunstan segir að lykillinn sé svokölluð „total portfolio“-aðferð, þar sem áhætta er metin á heildargrunni frekar en með föstum hlutföllum milli eignaflokka.
Þannig geti sjóðurinn brugðist hratt við breyttum markaðsaðstæðum og tekið skýra afstöðu þegar verðlag gefur tilefni til.
Vilji sjóðsins til að fjárfesta í Evrópu nær einnig til einkafjárfestinga.
Will Goodwin, fjárfestingastjóri sjóðsins, segir að sjóðurinn sé í leti að „ungum og metnaðarfullum stjórnendum“ sem hann gæti átt stóran hlut hjá og byggt upp sterkt samstarf með.
Um 5 prósent af eignasafni sjóðsins eru nú í einkafjármagni en Goodwin segir að hann búist ekki við að sá hluti verði mjög stór til framtíðar. Sumir einkafjárfestingasjóðir standi nú frammi fyrir þrýstingi þar sem verðmat eigna þeirra hefur ekki staðist raunveruleikann á mörkuðum.