Stórar alþjóðlegar hlutabréfavísitölur hafa hækkað það sem af er degi. Útlit er fyrir að þetta verði besta vika ársins á hlutabréfamörkuðum en svo virðist sem að það hafi dregið úr áhyggjum fjárfesta um mögulegan efnahagssamdrátt í Bandaríkjunum, að því er segir í frétt Financial Times.

Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hefur hækkað um 3,5% í vikunni. Allt stefnir í að þetta verði mesta hækkun vísitölunnar á einni viku frá því í byrjun nóvember síðastliðnum.

Evrópska Stoxx 600 vísitalan hefur hækkað um 0,2% í viðskiptum dagsins og hefur nú alls hækkað um 2,2% í vikunni. Þá hækkaði japanska hlutabréfavísitalan Nikkei 225 vísitalan - sem tók væna dýfu í byrjun mánaðar - um 3,6% í morgun og hækkaði alls um 7,9% í vikunni.

Þá gefur verðlagning á framvirkum samningum tengdum S&P 500 til kynna að bandaríska hlutabréfavísitalan muni byrjun daginn á svipuðum stað og við lokun markaða í gær. Eftir 1,6% hækkun í gær hefur S&P 500 hækkað um 3,7% í vikunni. Vísitalan hækkaði síðast meira á einni viku fyrir níu mánuðum síðan. S&P vísitalan hefur nú unnið upp alla lækkunina í byrjun mánaðar.

Hækkunin í gær hefur m.a. verið rakin til þess að sölutölur á smásölumarkaði þóttu sterkar ásamt því að umsóknir um atvinnuleysisbætur voru færri en gert var ráð fyrir. Þessar hagtölur hafa dregið úr áhyggjum fjárfesta um stöðu neytenda og vinnumarkaðarins vestanhafs.

Þess má einnig geta að íslenska Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,7% í dag. Alvotech, sem birti uppgjör í gærkvöldi, leiðir hækkanir en gengi líftæknilyfjafyrirtækisins hefur hækkað um 9,7% það sem af er degi. Ætla má að hækkun Alvotech hafi haft smitáhrif á hlutabréf annarra félaga í Kauphöllinni.