Samstæða Skaga hagnaðist um 972 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 137 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 18,4% á ársgrundvelli, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Afkoma Skaga var þó neikvæð um 380 milljónir á fyrri árshelmingi en samstæðan tapaði 1,4 milljörðum á fyrsta fjórðungi.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, segir að góður gangur hafi verið í grunnrekstri samstæðunnar á öðrum fjórðungi. Þar hafi mestu munað um tryggingastarfsemi VÍS sem skilaði sínum besta fjórðungi frá skráningu á hlutabréfamarkað árið 2013.

Afkoma af vátryggingasamningum nam 1,5 milljörðum króna samanborið við 695 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þar af er 259 milljóna króna jákvæð matsbreyting vegna aflagðrar erlendrar starfsemi.

Tekjur af vátryggingasamningum jukust um tæplega 9% á öðrum ársfjórðungi og tæplega 10% á fyrri helmingi ársins.

Ávöxtun fjárfestingareigna undir áætlunum

Fjárfestingartekjur Skaga á öðrum fjórðungi námu 536 milljónum eða því sem nemur 1,2% nafnávöxtun samanborið við 0,4% hækkun viðmiðs. Fjárfestingatekjur fyrstu 6 mánuði ársins nema samtals 39 milljónum eða sem nemur 0,1% ávöxtun.

„Ljóst er að erfiðir mánuðir á hlutabréfamarkaði höfðu talsverð áhrif á ávöxtun fjárfestingareigna og þar með afkomu samstæðunnar í heild á fyrri hluta ársins en vigt skráðra hlutabréfa í safninu hefur þó lækkað nokkuð síðan um áramót,“ segir í tilkynningu Skaga.

Tekjur í fjármálastarfsemi héldu áfram að vaxa samanborið við fyrra ár. Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 1,5 milljörðum á fyrri árshelmingi samanborið við 960 milljónir.