Veitingastaðurinn Noma í Kaupmannahöfn, sem hefur ítrekað verið kosinn besti veitingastaður í heimi, skilaði tapi í fyrsta sinn í fjögur ár þrátt fyrir að hafa fengið ríflega 200 milljónir íslenskra króna í styrk frá danska ríkisinu vegna samkomutakmarkana í Covid-faraldrinum. Bloomberg greinir frá.

Noma, sem er með þrjár Michelin stjörnur, var í fimmta sinn valið efst á lista The World’s 50 Best Restaurants í fyrra. Veitingastaðurinn býður m.a. upp á grænmetishádegisverð með vínpörun á 94 þúsund íslenskra króna.

Noma tapaði 1,7 milljónum danskra króna eða um 32 milljónum íslenskra króna á síðasta ári en afkoman var réttum megin við núllið árið 2020. Stjórn fyrirtækisins kveðst sátt með niðurstöðuna í ljósi rekstraraðstæðna í faraldrinum og býst við bættri afkomu á yfirstandandi ári.

Veitingastaðurinn skilaði síðasta tapi árið 2017 þegar yfirkokkurinn og meðeigandinn René Rezepi ákvað að loka honum í rúmt ár vegna endurbóta. Það stendur einnig til að loka staðnum tímabundið í ár og flakka á milli landa áður en staðurinn opnar aftur árið 2023.