Flest skráð fyrirtæki í Kauphöllinni í New York skiluðu betri afkomu en afkomuspár gerðu ráð fyrir. Það hefur þó ekki dugað til að heilla fjárfesta.
Alls hafa 90% fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni skilað uppgjörum og voru 79% þeirra með betri afkomu en greiningaraðilar höfðu spáð.
Fjárfestar hafa hins vegar ekki verið að verðlauna þennan góða árangur og hafa hlutabréf í fyrirtækjunum hækkað um 0,5% að meðaltali eftir að uppgjör hafa verið birt. Á síðustu tíu árum hafa hlutabréf hækkað um 1,6% eftir að uppgjör hafa verið birt.
Fyrirtæki sem hafa skilað verri uppgjöri hafa á sama tíma verið að taka meiri högg á markaðinum en vanalega.
UPS skilaði meiri hagnaði í síðustu viku en greiningaraðilar bjuggust við en hlutabréf félagsins lækkuðu um 1% daginn eftir. Apple skilaði meiri tekjum og hagnaði fyrr í mánuði en gengið lækkaði um 4,8% daginn eftir. Pay Pal féll um 12% síðan daginn eftir betra uppgjör en greiningaraðilar spáðu fyrir um.
Viðbrögðin á markaði í ágústmánuði hafa verið að hægja á uppganginum sem hefur verið í gangi í ár. S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 2,7% í ágúst. Á tímabili í júlí var vísitalan búin að hækka um 20% á árinu en hækkunin stendur nú í 16%.