Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) tilkynnti haustið 2021 um stefnu um útilokun eigna úr öllum eignasöfnum sínum sem uppfylla ekki ákveðin skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar. Sjóðurinn, sem er sá eini hér á landi sem hefur tekið upp slíka stefnu, seldi eignir að virði um 3 milljarða króna á grundvelli stefnunnar en til samanburðar nam eignasafn sameignardeildar LIVE rúmlega 1.170 milljörðum í lok árs 2022.
Á umræddum lista eru verðbréf útgefin af um 150 erlendum fyrirtækjum. Viðskiptablaðið tók saman ávöxtun af hlutabréfum umræddra fyrirtækja á árinu 2022, fyrsta heila árinu sem stefnan var í gildi hjá LIVE.
Óhætt er að segja að ávöxtun félaga á listanum hafi verið talsvert hagstæðari en sé horft til almennrar þróunar á hlutabréfamörkuðum í fyrra. Þannig var jákvæð ávöxtun af rúmlega tveimur af hverjum þremur félögum á útilokunarlistanum. Miðgildi ávöxtunar í krónum var jákvætt um 15%. Til samanburðar var neikvæð nafnávöxtun upp á 9,2% af erlendum hlutabréfum LIVE og heimsvísitala hlutabréfa MSCI lækkaði um 10,5% í krónum. Rétt er að taka fram ekki er sjálfgefið að LIVE hefði verið fjárfest í umræddum fyrirtækjum á tímabilinu.
Fara að fordæmi stórra norrænna sjóða
Hér er þó aðeins horft til eins árs en stefna LIVE um ábyrgar fjárfestingar miðar að því að stuðla að betri áhættuleiðréttri langtímaávöxtun. Jafnframt komu upp sérstakar aðstæður á mörkuðum vegna stríðsins í Úkraínu og orkukrísu víða um heim sem kunna að hafa litað ávöxtun hjá fyrirtækjum á útilokunarlistanum, líkt og fyrirtækja sem framleiða jarðefnaeldsneyti eða vopn.
Þótt LIVE sé eini lífeyrissjóðurinn hér á landi með yfirlýsta stefnu um útilokun þá beita margir af stærstu lífeyrissjóðum Norðurlanda þessari aðferð, þar á meðal norski olíusjóðurinn sem birtir sambærilegan útilokunarlista.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í Viðskiptablaði vikunnar. Nánari umfjöllun um útilokunarlistann, yfirlit yfir ávöxtun félaga á listanum, og viðtal við Arne Vagn Olsen, forstöðumann eignastýringar LIVE, má finna hér.