Árið 2020 var afkoma Keflavíkurflugvallar fyrir afskriftir og fjármagnsliði neikvæð um rúmlega 6 milljarða vegna áhrifa heimsfaraldursins. Til marks um áhrif faraldursins nam velta flugvallarins tæplega 5 milljörðum árið 2020, en árið áður nam veltan nærri 20 milljörðum. Afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði árið 2019 nam um 5,5 milljörðum króna og árið áður tæplega 10 milljörðum króna. Árið 2021 gekk þó mun betur en árið á undan. Veltan nærri tvöfaldaðist frá fyrra ári og afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var neikvæð um tæpa 2 milljarða króna. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir afkomu ársins 2022 verða talsvert betri en hann hafi þorað að gera ráð fyrir í byrjun þess árs og útlit sé fyrir að EBITDA afkoma verði yfir 3 milljarðar króna.
„Það er ekki fyrr en á þessu ári sem við reiknum með að reksturinn verði farinn að vinna fyrir afskriftum og fjármagnskostnaði af lánum. Fyrir ári síðan, í allri óvissunni sem þá ríkti, settum við okkur það markmið að EBITDA afkoman árið 2022 yrði nálægt núlli. Þar sem við reiknuðum með að 4,7 milljónir farþega færu um Keflavíkurflugvöll árið 2022, en raunin varð um 6,2 milljónir farþega, varð afkoman betri en við reiknuðum með. Það sem ég tek einnig jákvætt út úr rekstri síðasta árs er að okkur tókst að taka við þessum aukna fjölda farþega án þess að leggja út í meiri rekstrarkostnað en áætlanir gerðu ráð fyrir.“
Sveinbjörn segir þó ljóst að betur megi ef duga skal. „Við erum að afskrifa á Keflavíkurflugvelli um rúmlega 3 milljarða á ári svo við eigum enn nokkuð í land með að reksturinn geti staðið undir öllum þeim framkvæmdum sem framundan eru. Til að standa undir því þarf EBITDA sem hlutfall af tekjum að vera að minnsta kosti á bilinu 40-45%.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.