Jeff Bezos, stofnandi Amazon, segist ætla að gefa meirihluta af auðæfi sínum, sem eru metin á 124 milljarða dala í dag, til góðgerðarmála. Um er að ræða í fyrsta sinn sem hann lýsir því opinberlega yfir að hann hyggist gefa frá sér stærstan hluta af eignum sínum.

Í viðtali við CNN segist Bezos ætla að setja mikla fjármuni í loftslagsbaráttuna ásamt því að styðja við fólk sem geti sameinað mannkynið á tímum félagslegrar og pólitískrar sundrungar. Hann vildi þó ekki gefa upp nákvæma prósentu eða smáatriði um hvernig hann hyggist verja fjármununum.

Bezos, sem var með maka sínum Lauren Sanchez sér við hlið, sagðist vinna að því að „byggja upp svigrúm til að geta gefið frá sér peningana“.

Gefa Dolly Parton 15 milljarða

Tilkynnt var um helgina að Bezos og Sanchez hefðu veitt tónlistarkonunni Dolly Parton Bezos Courage and Civility Award verðlaunin ásamt 100 milljónum dala styrk, eða sem nemur 14,6 milljörðum króna.

„Þegar maður hugsar um Dolly, þá fara allir að brosa,“ segir Sanchez í viðtalinu. „Það eina sem hún vill er að gera heim fólks bjartari. Við gátum því ekki hugsað okkur neinn betri til að veita þessi verðlaun heldur en Dolly. Við vitum að hún á eftir að gera magnaða hluti með þau.“