Jeff Bezos, stofnandi Amazon, er aftur orðinn ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Bloomberg. Hann trónir á toppi listans í fyrsta sinn frá haustinu 2021.
Auðæfi Bezos eru metin af Bloomberg á 200 milljarða dala en áætlað er að þau hafi aukist um 23 milljarða dala frá áramótum sem má að mestu rekja til 18,4% hækkunar á hlutabréfaverði Amazon í ár. Bezos er jafnframt stofnandi geimferðafyrirtækisins Blue Origin og eigandi Washington Post.
Bezos hefur selt hlutabréf í Amazon á undanförnum fyrir meira en 8,5 milljarða dala en talið er að sú ráðstöfun tengist skattalegum hvötum, að því er kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal.
Hann hefur á undanförnum vikum tekið fram úr Elon Musk, stofnanda Tesla og SpaceX, og Bernard Arnault, stofnanda og forstjóra hátískusamstæðunnar LVMH.
Auðæfi Musk hljóða upp á 198 milljarða dala samkvæmt listanum en áætlað er að þau hafi dregist saman 31 milljarð dala í ár, einkum vegna lækkunar á gengi hlutabréf Tesla.
Bloomberg áætlar að auður Arnault hafi aukist 18 milljarða dala í ár samhliða 15% hækkun á gengi hlutabréfa LVMH. Auðæfi Arnault er því metin á 197 milljarða dala.
Þess má geta að Bernard Arnault og fjölskylda eru efst á rauntímalista Forbes yfir ríkustu aðila heims. Musk situr í öðru sæti og Bezos í því þriðja á þeim lista.