BMW hefur staðfest að fyrirtækið muni bíða með áframhaldandi framleiðslu á rafbílum í Oxford Mini-verksmiðju sinni. Á vef BBC segir að BMW hafi einnig hætt við 600 milljóna punda uppfærslu á verksmiðju sinni í Cowley.

Bílaiðnaðurinn í Bretlandi hefur verið í langvarandi viðræðum við bresku ríkisstjórnina um markmið um framleiðslu rafbíla en margir framleiðendur telja markmiðin vera of bjartsýn.

Stellantis er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir áhrifum af þessari stefnu en í nóvember í fyrra sagði fyrirtækið að það hefði ákveðið að loka sendibílaverksmiðju sinni í Luton vegna stefnunnar.

„Verksmiðjan okkar í Oxford er miðpunkturinn í framleiðslu og útflutningi á Mini-bílum, sem eru eftirsóttir í Bretlandi og úti um allan heim. Hins vegar, í ljósi þeirrar óvissu sem bílaiðnaðurinn stendur frammi fyrir, hefur BMW Group ákveðið að endurskoða rafbílaframleiðslu í Oxford,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ákvörðunin kemur aðeins tveimur árum eftir að BMW greindi frá áformum sínum um að fjárfesta hundruð milljóna punda í framleiðslu tveggja nýrra rafknúinna Mini-bílategunda.