Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur stöðvað sölu á US Steel til japanska fyrirtækisins Nippon Steel. Með ákvörðuninni uppfyllir hann loforð sitt um að halda stálframleiðandanum í innlendri eigu.
Ákvörðun forsetans kemur í kjölfar margra mánaða endurskoðunar af hálfu bandarísku alríkisnefndarinnar um erlenda fjárfestingu.
Nefndin tilkynnti Biden þann 23. desember sl. að hún væri óviss um það hvort hún ætti að mæla með samningnum eða ekki. Ákvörðunin var því látin falla til Biden en hann hafði sagt fyrir nokkrum mánuðum síðan að hann væri á móti sölunni.
Nippon Steel er fjórði stærsti stálframleiðandi heims og hafði fyrirtækið leitast við að kaupa US Steel til að komast inn á bandarískan markað.
Erlend fyrirtæki hafa verið að kaupa bandarísk stálfyrirtæki í áratugi en synjun Biden á sölunni er merki um stefnubreytingu innan bandarísku ríkisstjórnarinnar.