Kvikmyndaverið Warner Bros hefur beðist afsökunar á því að hafa deilt myndum á samfélagsmiðlum sem blönduðu saman kvikmyndunum Barbie og Oppenheimer en myndirnar hafa vakið mikla reiði meðal fólks í Japan.
Á einni mynd mátti sjá Barbie með hárgreiðslu í formi sveppaskýs, sem myndast eftir kjarnorkusprengju, með titlinum: „Þessi Ken er algjör stílisti“. Á annarri mátti sjá leikarann Cillian Murphy, sem leikur Robert Oppenheimer, berandi Margot Robbie á öxl sinni í gegnum brennandi borg.
Japanskir samfélagsmiðlar loguðu og sögðu margir netverjar kvikmyndaverið gera lítið úr sprengjuárásunum á Hiroshima og Nagasaki í seinni heimsstyrjöldinni.
Í yfirlýsingu sem birt var á samfélagsmiðli Warner Bros í Japan segir að fyrirtækið harmi þess að höfuðstöðvar fyrirtækisins í Bandaríkjunum hafi brugðist við „Barbenheimer“ æði aðdáenda með slíkum hætti og hefur kvikmyndaverið beðist afsökunar.
Talið er að í kringum 140.000 af 350.000 íbúum Hiroshima létust í sprengingunni 6. ágúst 1945 og að minnsta kosti 75.000 létu svo lífið í Nagasaki þremur dögum seinna. Þúsundir hafa síðan þá dáið úr geislavirkni.
Dreifingaraðili kvikmyndarinnar Oppenheimer hefur ekki enn tilkynnt um útgáfudag myndarinnar í Japan.