Lítið hefur verið um fundarstörf hjá málefnanefndum Sjálfstæðisflokksins að undanförnu að sögn Heiðars Guðjónssonar, fjárfestis og Sjálfstæðismanns.

Í nýjum hlaðvarpsþætti Chess after Dark segir hann að efnahags- og viðskiptanefnd flokksins hafi ekki enn fundað frá því að hann var kjörinn í nefndina á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í byrjun mars síðastliðnum.

Heiðar var kjörinn í nefndina ásamt Ásgeiri Helga Reykfjörð Gylfasyni, forstjóra Skeljar fjárfestingarfélags, Sigþrúði Ármann atvinnurekanda, Þórði Gunnarssyni hagfræðingi og Kristófer Más Maronssonar, hagfræðingi og starfsmanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

„Ég var alltaf að bíða eftir því hvenær fyrstu fundurinn verði. Ég hef spurt skrifstofuna og formanninn, hvenær er fyrsti fundur - hef ekkert heyrt,“ sagði Heiðar.

„Maður veltir því fyrir sér - ekki það að ég sé eitthvað númer í þessu eða þetta fólk – að ef þú ætlar svolítið að efla flokksstarfið og koma krafti inn, hvers vegna er ekki kallað til fólks sem vill vinna í sjálfboðavinnu fullt af starfi, leggja gott til, lesa yfir t.d. allskonar þingfrumvörp og annað því um líkt, og hjálpa til?

Vegna þess að það er ágætis fjármálalæsi í þessari nefnd og við getum alveg komið með einhverjar hugmyndir.“

Í þessu samhengi bendir Heiðar á að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, hefur lýst því að hún vilji efla flokksstarfið. Hún hafi frá landsfundi m.a. ráðið nýjan framkvæmdastjóra og vinni líklega að þessu verkefni.

„En ég er ekkert sérstaklega þolinmóður maður og hef aldrei verið það. Mér finnst að þegar þú kemur inn með eitthvað svona, þá er hægur vandi að kalla að eða biðja einhvern um fyrsta fundinn og setja þetta í gang,“ sagði Heiðar.

„Þetta á ekki bara við um þessa nefnd, það er allskonar; atvinnuvega-, velferðar- og utanríkismálanefnd. [Það eru] alls konar nefndir sem geta komið með fullt af góðu efni inn í flokksstarfið núna.“

Ekki góð byrjun

Í þessum umræðum sagði hann flokkinn geta verið mun beittari í stjórnarandstöðu. Hann telur nokkra þingmenn Miðflokksins, þar á meðal Snorra Másson, Sigríði Andersen, Bergþór Ólason, haga sér meira eins og sjálfstæðismenn heldur en þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Spurður hvernig Guðrún hafi staðið sig á fyrstu mánuðum formannstíðar sinnar svaraði Heiðar: „Mér finnst þetta ekki góð byrjun.“

Hann sagðist hafa kosið Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í formannskjörinu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í ár. Hann sé þó tilbúinn að vinna með hvaða formanni sem er.

„Ég vil bara gjarnan að þetta flokksstarf eflist. Eins og sést á þessum landsfundum, það er ekkert stjórnmálaafl sem getur kallað til jafnmargt fólk og ég vil segja gæðafólk. Þá er um að gera að nýta sér það.“

Landsfundurinn of mikil minningarathöfn um Bjarna

Hvað varðar landsfundinn sjálfan sem haldinn var 28. febrúar til 2. mars síðastliðins, sagði Heiðar að honum hafi þótt fundurinn vera of mikil minningarathöfn fyrir fráfarandi formann, Bjarna Benediktsson.

„Það hefði bara átt að vera meira efnislega verið að ræða málin. Á landsfundinum sem ég mætti á þar á undan þá sat öll forystan fyrir svörum og allir gátu spurt‏. Það var ekki gert núna.

Þessir landsfundir verða oft þannig að ef það er formannskjör þá snúast þeir eiginlega bara um það. Það er synd vegna þess að þú ert búinn að kalla margt ágætt fólk saman. Það er mjög upplýsandi að vera þátttakandi í skoðanaskiptum þeirra á milli.“

Heiðar ræðir um Sjálfstæðisflokkinn frá 43:53-48:40.