Á morgun, föstudaginn 11. nóvember, fer Dagur einhleypra (e. Singles Day), einn stærsti viðskiptadagur í netverslun í heiminum, fram. Dagurinn markar upphaf jólaverslunarinnar hjá fjölda landsmanna og er sá fyrsti í röðinni af þremur stórum netverslunardögum sem eru á dagskrá um þetta leyti á hverju ári. Hinir dagarnir eru Svartur föstudagur (e. Black Friday) sem fer í ár fram föstudaginn 25. nóvember, degi eftir þakkargjörðahátíðina, og Rafrænn mánudagur (e. Cyber Monday) strax næsta mánudag á eftir.

Dagur einhleypra á rætur sínar að rekja til Kína og hefur orðið einn stærsti viðskiptadagur í netverslun á heimsvísu eftir að kínverski netrisinn Alibaba tók hann upp á sína arma fyrir rúmum áratug. Til að setja stærð dagsins í samhengi nam sala Alibaba á Degi einhleypra 84,5 milljörðum dala í fyrra, eða sem nemur rúmlega 12 þúsund milljörðum króna.

Styttra er síðan Dagur einhleypra ruddi sér til rúms hér á landi. Markaðskonan, frumkvöðullinn, varaþingmaðurinn og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ, Brynja Dan Gunnarsdóttir, kom landsmönnum á bragðið árið 2014. Hún hefur frá þeim tíma tekið saman þau tilboð sem standa landsmönnum til boða á Degi einhleypra og gerði það til að byrja með inni á bloggsíðu. Fyrir um fjórum árum setti Brynja svo í loftið heimasíðuna 1111.is, sem er skírskotun í 11. nóvember, daginn sem Dagur einhleypra fer fram ár hvert. Á síðunni má nálgast alla afslætti sem verslanir munu bjóða upp á á Degi einhleypra, en heimasíðan heldur einnig utan um afslætti sem verða í boði hina stóru netverslunardagana.

Brynja segir að líkja megi 1111.is við regnhlíf fyrir verslanir þar sem hægt sé að nálgast allt á einum stað, þ.e. hvaða verslanir eru með afslætti og hversu mikla afslætti þær bjóða. „Þannig er fólki auðveldað lífið og getur það því sest fyrir framan tölvuna og gengið frá jólainnkaupunum með skipulögðum hætti.“

Mikið mun mæða á 1111.is meðan á stóru netverslunardögunum stendur enda mikill fjöldi að sem heimsækir síðuna á meðan þeim stendur. Brynja segir heimasíðuna hafa staðist prófið hingað til og kveðst bjartsýn á að hún geri það aftur í ár. Hún kveðst aftur á móti hafa mestar áhyggjur af því að greiðslukerfin standist ekki álagið, eins og raunin hefur verið undanfarin tvö ár. „Ég ligg á bæn um að greiðslukerfin fari ekki á hliðina. Það er alveg skiljanlegt að kerfin standist ekki svona gífurlegt álag en vonandi hafa greiðslumiðlunarfyrirtækin gert allt í sínu valdi til að þau standist álagið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.