Deloitte í Bandaríkjunum hefur beðið starfsfólk sitt sem vinnur að samningum við bandarísk stjórnvöld að fjarlægja persónufornöfn sín, sem vísa til þess hvers kyns þau eru eða skilgreina sig sem, úr undirskriftum sínum í tölvupóstasamskiptum.
Fyrirtækið er það nýjasta til að uppfæra stefnu sína hvað varðar viðkvæmar pólitískar og samfélagslegar ádeilur í Bandaríkjunum.
Samkvæmt tölvupósti frá Deloitte US, sem Financial Times hefur fengið að sjá, sagði stjórn félagsins að hún myndi hætta við fjölbreytileikamarkmið sín og þátttöku í svokölluðum DEI-ráðningum.
Starfsmenn voru einnig beðnir um að fylgja eftir þessum breytingum til að samræmast nýjum starfsháttum og kröfum stjórnvalda.
Donald Trump hefur beint spjótum sínum að öllum tilvísunum í kynjahugmyndafræði eftir að hafa snúið aftur til Hvíta hússins í síðasta mánuði. Hann sagði til að mynda að það væri nú opinber stefna bandarískra stjórnvalda að viðurkenna aðeins tvö kyn.