Verkfall er yfirvofandi meðal starfsmanna bandarísku bílaframleiðendanna GM, Ford og Chrystler en núverandi fjögurra ára samningur stéttarfélagsins rennur út 14. september næstkomandi.

Það er United Auto Workers-stéttarfélagið sem semur fyrir hönd samstarfsmanna hjá bílaverksmiðjunum þremur, oft kallað The Detroit Three.

Samkvæmt fréttamiðlinum Wall Street Journal eru báðar hliðar langt frá því að ná samkomulagi. Ford birti meðal annars tilboð síðasta fimmtudag um 9% launahækkun. Stéttarfélagið fer fram á 46% hækkun og segir Shaun Fain, forseti UAW, að launahækkunartillaga Ford væri móðgun á verðmæti starfsmanna.

Ef samkomulag næst ekki hefur forseti UAW sagt að boðið verði til verkfalls og þá hugsanlega hjá öllum þremur fyrirtækjum. Nýleg atkvæðagreiðsla heimilaði verkfallið og greiddu 97% félagsmanna atkvæði með verkfalli.

Að sögn starfsmanna hefur verðbólgan étið upp launin þeirra þrátt fyrir hækkandi verð á bílum. Núverandi samningur er einnig hlaðinn úreltum ívilnunum um láglaunastöður sem koma frá fyrstu árum fyrirtækjanna í Detroit í byrjun 20. aldar.

Starfsmenn undir verndarvæng UAW eru aftur á móti í mun betri stöðu en hjá mörgum samkeppnisaðilum fyrirtækjanna þriggja. Meðallaun starfsmanna UAW í bílaframleiðslu eru um 65 dalir á klukkustund, samanborið við 55 dali hjá Toyota og 45 dalir hjá Tesla.