Á fyrstu sjö mánuðum ársins voru nýskráðir 9.216 nýir fólksbílar, þar af voru 1.330 þeirra nýskráðir í júlímánuði. Þetta jafngildir 28,1% aukningu miðað við sama tímabil í fyrra, að því er kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Nýskráning rafmagnsbíla hafi tekið við sér eftir verulegan samdrátt á síðasta ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hafi 2.825 nýir rafmagnsfólksbílar verið nýskráðir. Það jafngildi 134% aukningu á nýskráningu rafmagnsbíla milli ára. Tengiltvinnbílum (e. PHEV) og tvinnbílum (e. hybrid) hafi einnig fjölgað á milli ára. Á sama tíma hafi nýskráningum á hefðbundnum bensín- og dísilbílum hins vegar farið fækkandi.
„Þrátt fyrir umtalsverða fjölgun nýskráðra rafmagnsbíla hefur hlutdeild þeirra enn ekki náð sömu hæðum og árið 2023 þegar hún var rúmlega 38% á fyrstu sjö mánuðum ársins. Rafmagnsbílar voru þó stærsti einstaki orkugjafinn á fyrstu sjö mánuðum ársins með 31% hlutdeild af öllum nýskráðum fólksbílum. Á eftir rafmagnsbílum komu tvinnbílar (e. hybrid) með 25% hlutdeild og tengiltvinnbílar með 22%. Hlutdeild bensín- og dísilbíla heldur áfram að dragast saman og nam samanlagt 23%,“ segir í tilkynningunni.
Ef nýskráningar séu skoðaðar eftir kaupendahópum megi sjá að mesta aukningin milli ára var hjá einstaklingum. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hafi samtals verið nýskráðir 3.081 nýir fólksbílar á einstaklinga sem jafngildi 51,5% aukningu milli ára.
Meira en helmingur umræddra fólksbíla voru rafmagnsbílar eða um 61%. Samanlagt var hlutdeild rafmagns- og tengitvinnbíla yfir 80% af nýskráningum fólksbíla á fyrstu sjö mánuðum ársins hjá einstaklingum.
Flestir nýskráðir fólksbílar á fyrstu sjö mánuðum ársins voru bílaleigubílar. Samanlagt voru skráðir 5.170 nýir bílaleigubílar sem er 16,5% aukning frá sama tímabili í fyrra. Tvinnbílar (e. hybrid) voru algengastir en fæstir bílaleigubílar voru rafmagnsbílar.
Kia vinsælust
Þegar horft er til einstakra bíltegunda hefur Kia verið mest skráða tegundin það sem af er ári með alls 1.639 nýskráða fólksbíla. Það jafngildir um 18% af öllum nýskráðum nýjum fólksbílum á tímabilinu. Þar á eftir kom Toyota með 1.097 nýskráningar og 12% hlutdeild. Dacia og Tesla voru síðan hvort um sig með rúmlega 8% hlutdeild af nýskráningum.