Bílastæðafyrirtækið Kvasir lausnir hefur rutt sér til rúms undanfarin ár en lausn fyrirtækisins byggist á kerfi sem er hannað og smíðað á Íslandi. Kvasir er með kerfi sitt m.a. á Þingvöllum, Snæfellsnesi og við Seljalandafoss ásamt Kirkjusandi og Höfðatorgi.

Hugmyndin á bak við lausnina var að hanna einfalda bílastæðalausn þar sem viðskiptavinir greiddu aðeins fyrir nákvæma notkun hvers bílastæðis og að þeim yrði ekki refsað ef greiðsla færi ekki fram samdægurs af einhverri ástæðu.

Kvasir var stofnað fyrir rúmlega fimm árum af fyrirtækjunum Raförnin, sem hefur sérhæft sig í læknisfræðilegum röntgenmyndgreiningum í 40 ár, og hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu, sem skrifaði hugbúnaðinn fyrir Vaðlaheiðargöng.

Skarphéðinn Eiríksson, rekstrarstjóri Kvasa lausna, segir í samtali við Viðskiptablaðið að umræðan um bílastæðarekstur sé oft á villigötum en að hann skilji þó þann pirring sem myndast innan samfélagsins vegna mögulegrar ringulreiðar.

„Þetta snýst mikið um merkingar og að láta fólk vita en við fórum bara í að hanna greiðsluvélar sem lesa bílnúmerin og vita nákvæmlega hvenær bíll leggur í stæði og hvenær hann fer. Þannig ef þú gleymir að borga eða borgar ekki af einhverjum ástæðum þá getum við bara sent beiðni sjálfkrafa í heimabanka þinn.“

Hann segir að félagið sendi aðeins kostnaðinn fyrir notkun hvers bílastæðis og að ekki séu send vangreiðslugjöld af neinu tagi. „Við höfum aldrei gert það og munum aldrei gera það.“

Starfsemi Kvasa er skipt upp eftir staðsetningu bílastæða en á ferðamannastöðum eru bílar til að mynda rukkaðir um rúmar þúsund krónur fyrir heilan dag. Gjöldin eru breytileg eftir stærð bíla en hugmyndin er að nota peninginn til að styðja við uppbyggingu svæðisins.

„Síðan erum við líka með starfsemi á Kirkjusandi og Höfðatorgi en þar erum við með aðeins flóknara kerfi þar sem rukkað er fyrir hverja mínútu. Þar erum við jafnframt að halda utan um bæði íbúa í húsinu, starfsmenn og fólkið sem kemur í heimsókn.“

Skarphéðinn segir að viðskiptavinir geti greitt fyrir bílastæðið á staðnum annaðhvort í gegnum smáforrit eða greiðsluvél eða seinna í gegnum heimabanka.

„Við þurfum ekkert að vera að refsa fólki bara vegna þess að það hafi verið löng röð í greiðsluvélina og rigning eða hvað sem það var. Ef þú ert á bílaleigubíl þá getum við líka sent reikninginn beint inn á samninginn hjá bílaleigunni.“

Vangreiðslugjöld hitamál

Umræðan um bílastæðamál er ekki ný af nálinni og eru spurningar um vafasemi starfseminnar ekki einsdæmi á Íslandi. Ökumenn víða um heim hafa kvartað undan óljósum bílastæðagjöldum og vangreiðslugjöldum sem birtast skyndilega í heimabanka.

„Kvartanir snúa nær alfarið að háum vangreiðslugjöldum sem geta numið frá 1.500 kr. til 7.500 kr.“

Danska samgönguráðuneytið úrskurðaði til dæmis nýlega að álagning bílastæðagjalda, sem birtist í heimabanka mörgum dögum eða vikum eftir að ökutækinu hefur verið lagt, sé ólögleg. Samgönguráðherrann ítrekaði jafnframt að ekki væri um lagabreytingu að ræða, heldur skýringu á núverandi danskri reglugerð.

Neytendasamtökin hér á landi hafa lengi kallað eftir skýrari reglum þegar kemur að bílastæðarekstri. Samtökin birtu til að mynda greiningu í síðasta mánuði þar sem bent var á fjölda kvartana vegna bílastæðamála á undanförnum tveimur árum.

„Kvartanir snúa nær alfarið að háum vangreiðslugjöldum sem geta numið frá 1.500 kr. til 7.500 kr. Gjöldin eru oftast lögð á án fyrirfram tilkynningar og virðast langtum hærri en það tjón eða kostnaður sem þjónustuveitandi verður fyrir,“ segir á heimasíðu NS.

Neytendastofa sektaði meðal annars fjögur fyrirtæki í síðasta mánuði fyrir að hafa brotið gegn lögum um góða viðskiptahætti sem og reglum um verðmerkingar með því að veita ekki upplýsingar um öll gjöld tengd stæðunum.

Samræmast ekki innheimtulögum

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir hins vegar í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé nóg að bæta aðeins úr merkingum. Neytendastofa þurfi líka að taka til skoðunar vinnubrögð bílastæðafyrirtækja þegar kemur að vangreiðslugjöldum.

„Við létum vinna fyrir okkur lögfræðiálit sem við sendum á bæði dómsmálaráðherra og Neytendastofu. Niðurstaðan var sú að samkvæmt innheimtulögum þá verða fyrirtæki að gefa einstaklingum færi á að greiða hið upprunalega gjald án álagningar innan ákveðins tíma.“

Samkvæmt innheimtulögum þarf jafnframt að senda skuldara skriflega innheimtuviðvörun áður en frekari innheimtuaðgerðir hefjast. Sú aðferð að birta kröfu í heimabanka án undangenginnar viðvörunar stangast á við 7. gr. innheimtulaga og er að mati Breka ekkert annað en dulbúin innheimta.

Hann gagnrýnir einnig óskýr bílastæðagjöld og nefnir nýlega gjaldtöku Isavia við brottfararennu Keflavíkurflugvallar en samkvæmt nýju fyrirkomulagi þar hafa ökumenn aðeins fimm mínútur til að hleypa út farþegum, losa farangur eða annan farm.

Kvartanir vegna fyrirkomulagsins voru ekki lengi að berast en mbl.is greindi frá því í maí að ökumaður hafi verið rukkaður um 1.990 krónur, mánuði eftir ferð upp á flugvöll, fyrir að hafa verið einni og hálfri mínútu lengur í rennunni á miklum háannatíma.

Breki segir þetta fyrirkomulag mjög óskýrt þar sem engin leið sé fyrir ökumann að sannreyna hvenær tímamælirinn hefst eða hvort sá tímamælir sé vottaður yfirhöfuð.

„Á meðan þetta er svona óskýrt þá ætti Isavia að sjá í sóma sinn að vera ekki að rukka. Það þarf meiri sveigjanleika og vottaðan mæli sem leyfir fólki að sannreyna tímann. Þetta er eins og að fara í fiskbúð, biðja um kíló af þorski og fá svo bara óvigtað flak sem fiskalinn segir að sé eitt kíló.“

Fagnar aðkomu slíkra fyrirtækja

Breki segist fagna aðkomu fyrirtækja eins og Kvasir lausna og Checkit sem rukki aðeins auglýst verð og gefi fólki færi á að ljúka sínum málum í sátt og samlyndi. Hann segir að það sé einnig mikilvægt að uppfylla lög um sanngjarna samningsskilmála.

„Fólk hefur stundum borgað vitlaust eða ekki getað greitt af einhverri ástæðu. Í sumum tilvikum hefur appið bilað og skráð ökumann á vitlausan stað. Ef það gerist þá á neytandinn hins vegar ekki að líða fyrir því enda eru 99% þeirra sem hafa samband við okkur löghlýðnir borgarar sem vilja borga sanngjarnt verð fyrir sanngjarna vöru og eru ekki að reyna að komast hjá því að borga.“