Bandarískir neyt­endur standa frammi fyrir veru­legri hækkun á bíla­verði eftir að Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, til­kynnti um nýja 25% tolla á bíla og vara­hluti frá Kanada og Mexíkó.
Tollarnir, sem eiga að taka gildi á morgun, gætu hækkað meðal­verð nýrra bíla í Bandaríkjunum um allt að 3.125 dali, eða um 435 þúsund krónur, að mati greiningar­deildar JP Morgan en The Wall Street Journal greinir frá.

Bandaríkin, Kanada og Mexíkó hafa lengi verið sam­tengd í fram­leiðslu og sölu bíla, en nær fjórðungur allra nýrra fólks­bíla sem seldir voru í Bandaríkjunum árið 2024 var fram­leiddur í þessum tveimur löndu.

Stórir bílaframleiðendur eins og General Motors, Volkswagen, Stellantis og Honda treysta verulega á verksmiðjur í nágrannalöndunum til að fullnægja eftirspurn á bandarískum markaði.

Mexíkó er sérstaklega mikilvægt fyrir bandaríska bílaaðila, en þar eru framleidd vinsæl módel eins og Chevrolet Equinox, Ford Bronco Sport og sumir RAM-pallbílar.

Kanada er einnig stór birgir, og því gæti þessi tollastefna raskað rekstri margra alþjóðlegra framleiðenda sem reiða sig á frjálsa vöruflutninga innan Norður-Ameríku

Hærri verð bæði á innfluttum og bandarískum bílum

Þó að tollarnir beinist að innfluttum bílum og varahlutum munu þeir einnig hafa áhrif á bíla sem framleiddir eru í Bandaríkjunum. Jafnvel bílaframleiðendur sem hafa verksmiðjur í Bandaríkjunum, eins og Tesla, nota mikið af íhlutum sem koma frá nágrannalöndunum.

Tesla-bílar sem seldir eru í Bandaríkjunum innihalda að meðaltali 20% íhluta frá Mexíkó.

Þar sem flestir bandarískir bílar innihalda varahluti frá erlendum aðilum mun þessi tollastefna leiða til almennrar hækkunar á bílavörum í landinu.

Hækkanir koma á versta tíma fyrir neytendur

Nýir bílar í Bandaríkjunum hafa þegar hækkað verulega í verði á undanförnum árum. Meðalverð nýrra bíla er nú um 44.000 dali (6,1 milljón íslenskra króna á gengi dagsins), sem er 25% hærra en árið 2019.

Þessi hækkun er að miklu leyti afleiðing af kórónuveirufaraldrinum og skorti á hálfleiðurum, sem hefur haft áhrif á framleiðslugetu bílaframleiðenda.

Nýju tollarnir gætu því orðið mikið högg fyrir bandaríska neytendur sem þegar eiga erfitt með að fjármagna kaup á nýjum bílum.

Það er þó óljóst hversu mikið af auknum kostnaði bílaframleiðendur munu taka á sig og hversu mikið verður velt yfir á neytendur.

Auk tollanna á bíla frá Kanada og Mexíkó hyggst Trump einnig leggja 25% tolla á innflutt stál og ál, sem eru lykilhráefni í bílaframleiðslu.

Slík hækkun á hráefnum myndi enn frekar auka framleiðslukostnað bandarískra bílafyrirtækja.

Enn fremur hefur forsetinn nefnt hugmyndina um „gagnkvæma tolla“, sem myndu jafna tolla Bandaríkjanna við tolla annarra ríkja, auk sértækra tolla á ýmsa iðngreina, þar á meðal bílaframleiðslu.

Mikil óvissa ríkir um hvort einhverjar undanþágur verði veittar fyrir bíla sem framleiddir eru í samræmi við fríverslunarsamning Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada (USMCA).

Ef svo er ekki, gæti þessi tollastefna grafið undan viðskiptasambandi þessara þriggja ríkja, sem hefur verið burðarás í bílaframleiðslu álfunnar í áratugi.

Þó að bílaiðnaðurinn hafi fengið mánaðar frest áður en tollarnir taka gildi, virðist ljóst að bandarískir neytendur, ásamt bílaframleiðendum í öllum Norður-Ameríku, muni finna fyrir áhrifum þessarar stefnu á næstu mánuðum.