Bíó Paradís á Hverfisgötu skilaði 17 milljóna króna hagnaði eftir skatta árið 2021 samanborið við 10 milljóna hagnað árið 2020.
Sala kvikmyndahússins jókst úr 140 milljónum í 191 milljón á milli ára. „Verkefnisstaðan var þokkaleg allt árið og áhrif heimsfaraldurs á starfsemi félgsins óveruleg ef nokkur,“ segir í ársreikningi fyrir árið 2021.
Rekstrartekjur Bíós Paradísar, sem opnaði árið 2010, hafa aldrei verið meiri á verðlagi hvers árs, eða í það minnsta ekki á þeim árum þar sem gefnar eru upp rekstrartekjur í ársreikningum Heimilis kvikmyndanna - Bíó P ses.
Rekstrargjöld voru 172 milljónir en þar af var rekstur fasteigna 35,4 milljónir og laun og launatengd gjöld 82 milljónir en ársverk voru 12.
Eignir voru bókfærðar á 72,2 milljónir í lok síðasta árs og eigið fé var 19,4 milljónir.
Bíó Paradís við Hverfisgötu lokaði um skeið árið 2020 vegna áhrifa Covid-faraldursins og óvissu um getu til að standa straum af leigukostnaði. Kvikmyndahúsið opnaði aftur haustið 2020 með samkomulagi við eigendur húsnæðisins á Hverfisgötu og uppfærðum samstarfssamningi við ríkið og borgina.