Bíó Paradís á Hverfisgötu hefur óskað eftir því við fjárlaganefnd að hún styrki starfsemi bíóhússins um 50 milljónir króna á árinu 2025 vegna kostnaðar við að bæta aðstöðu hússins.
„Fjárframlag þetta myndi tryggja það að aðgengi allra og viðunandi aðstæður kvikmyndamenningarhússins Bíó Paradís sé tryggð,“ segir í bréfi Hrannar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bíós Paradísar, til fjárlaganefndar.
Þetta er annað árið í röð sem Bíó Paradís óskar eftir 50 milljóna króna fjárstyrki frá ríkissjóði. Kvikmyndahúsið fékk 18 milljóna króna tímabundinn styrk í fjárlögum 2024.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun árs þá fær Heimili kvikmyndanna - Bíó Paradís ses., sjálfseignarstofnunin sem heldur utan um rekstur kvikmyndahússins, alls 78 milljónir króna í formi rekstrarstyrkja frá bæði ríki og borg, þar á meðal ofangreindan einskiptisstyrk.
Til samanburðar námu tekjur kvikmyndahússins 268 milljónum króna og rekstrargjöld voru um 257 milljónir.
Í ofangreindu bréfi til fjárlaganefndar segir að Heimili kvikmyndanna hafi varið talsverðum hluta af sínu takmarkaða rekstrarfé og mikilli orku í að gera húsið og starfsemina sem aðgengilegt sem fjölbreyttustum hópi fólks.
„Þegar Heimili kvikmyndanna hóf starfsemi árið 2010 tók það við húsnæði á leigu í mikilli viðhaldsþörf og hefur þurft að byggja upp sína starfsemi, aðstöðu, tækjakost og tekjur félagsins frá grunni meðfram því að sníða húsið að þörfum félagsins,“ segir í bréfinu.
Hrönn segir að áskoranir félagsins séu þríþættar. Í fyrsta lagi hafi húsnæðiskostnaður hækkað talsvert, í öðru lagi hafi launakostnaður hækkað umtalsvert sem og kostnaður við helstu aðföng hússins og í þriðja lagi hafi viðhald og endurbætur sem félagið kláraði að greiða fyrir á síðasta ári reynst kostnaðarsamar.
„En betur má ef duga skal og enn eru mörg verk óunnin í frágangi á þessum framkvæmdum; setusvæði inn af anddyri hefur mætt afgangi og er komið á tíma, gólfið í anddyri er mjög slitið og þyrfti að lakka, sæti sem tekin voru í gegn 2020 þarfnast viðhalds og það þarf að leggja lýsingu inn á salernum og inni í sölunum,“ segir í kafla um viðhald og endurbætur hússins.
„Þar stendur til að bæta merkingar og aðgengi með tilliti til sjónskertra og heilabilaðra einstaklinga. Einnig má þess geta að tækjabúnaður bíósins þarfnast stöðugs viðhalds sem er mjög kostnaðarsamt og komið er að endurnýjun á hluta sýningarbúnaðar.“