Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech, sem þróaði fyrsta bóluefnið gegn kórónuveirunni í samstarfi við bandaríska lyfjarisann Pfizer, hagnaðist um 10,3 milljarða evra á síðasta ári, um 1,46 þúsund milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt hjá Financial Times , en félagið birti ársreikning sinn fyrir árið 2021 í gær.

Hagnaðurinn nam 15,2 milljónum evra árið 2020 og jókst hagnaðurinn því talsvert á milli ára, en sala félagsins á bóluefni fór á flug árið 2021. Tekjur félagsins námu tæpum 19 milljörðum evra á síðasta ári en voru einungis um 482 milljónir evra árið 2020.

Sjá einnig: Tekjur borgarinnar margfaldast út af Covid

BioNTech er með höfuðstöðvar í borginni Mainz í Þýskalandi. Arðsemi félagsins hefur leitt til þess að tekjur borgarinnar af fyrirtækjasköttum hafa stóraukist. Samkvæmt ársreikningi greiddi félagið 4,75 milljarða evra í skatta til opinberra aðila árið 2021, þar á meðal í Bandaríkjunum og öðrum þýskum borgum.

486 milljónir í arð til hluthafa

Félagið ætlar að eyða auknum fjármunum í þróun nýrra lyfa sem byggja á mRNA tækninni. Jafnframt segir í ársreikningi að félagið ætli að hefja endurkaup á eigin hlutum fyrir 1,5 milljarða evra á næstu tveim árum. Auk þess ætlar félagið að leggja til arðgreiðslu til hluthafa á næsta ársfundi upp á 2 evrur á hlut, eða sem jafngildir 486 milljónum evra.

Fyrirtækið hefur skrifað undir samninga um afhendingu 2,4 milljarða bóluefnaskammta fyrir árið 2022 og áætlar að sölutekjur af bóluefninu muni nema á bilinu 13 til 17 milljörðum evra á árinu.

Gengi bréfa BioNTech hækkaði um 6,7% við opnun markaða í gærmorgun. Dagslokagengi gærdagsins stóð í tæpum 175 dölum á hlut, en hæst var gengið í ágústmánuði í fyrra þegar það náði upp í tæpa 450 dali á hlut.