Endurgreiddur kostnaður alþingismanna vegna utanlandsferða á síðasta ári nam rúmlega 48 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Kostnaðurinn dróst saman um 35% frá fyrra ári er þingmenn ferðuðust alls út fyrir landsteinana fyrir tæplega 74 milljónir króna. Fyrir utan heimsfaraldursárin 2020 og 2021 hefur kostnaðurinn ekki verið lægra frá árinu 2017, er hann nam tæplega 31 milljón á gengi dagsins í dag.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því á síðasta kjörtímabili en í lok nóvember sl. fóru fram Alþingiskosningar, í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sleit ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. Viðbúið er að mörg ný andlit raði sér á listann yfir erlend ferðlög þingmanna á þessu ári enda fól niðurstaða kosninganna, sem og sjálfsákvarðað brotthvarf sumra þingmanna, í sér töluverða endurnýjun í þingmannahópnum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi standa nokkrir þingmenn upp úr hvað ferðakostnað varðar. Birgir Þórarinsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var með langhæsta heildarferðakostnaðinn árið 2024, eða alls 4,8 milljónir króna. Til marks um það var næst ferðaglaðasti þingmaðurinn, Njáll Trausti Friðbertsson, með 1,2 milljónum króna minni ferðakostnað. Raunar voru það þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem röðuðu sér í þrjú efstu sætin því Diljá Mist Einarsdóttir fylgdi fast á hæla Njáls Trausta með 3,4 milljónir í ferðakostnað erlendis. Næstur kom Framsóknarþingmaðurinn fyrrverandi, Jóhann Friðrik Friðriksson, með 2,1 milljón og Bjarni Jónsson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, sömuleiðis með 2,1 milljón.
Líkt og gefur að skilja skýrir nefndastarf þingmanna að miklu leyti hve mikið þeir eru á faraldsfæti. Á síðasta löggjafarþingi sat Birgir Þórarinsson til að mynda í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og var formaður Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, auk þess að sitja í utanríkismálanefnd og vera varamaður í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
Njáll Trausti var formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, sat í utanríkismálanefnd og þingmannanefnd Íslands og ESB, auk þess að vera varamaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Diljá Mist var svo formaður utanríkisnefndar, auk þess að sitja í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og þingmannanefnd Íslands og ESB. Að auki var hún varamaður í Íslandsdeild NATO-þingsins.
Samkvæmt vef Alþingis fór Birgir átján sinnum í utanlandsferðir á síðasta ári vegna þátttöku í alþjóðastarfi. Utanlandsferðir Njáls Trausta voru átta talsins og Diljá Mist ferðaðist níu sinnum út fyrir landsteinana.
Alls voru átta ferðir farnar á vegum utanríkismálanefndar árið 2024, þar á meðal fræðsluferð til Sierra Leone. Eðli málsins samkvæmt er umrædd nefnd sú lang ferðaglaðasta af fastanefndum þingsins, sem eru átta talsins. Ein önnur fastanefnd lagði land undir fót á síðasta ári en allsherjar- og menntamálanefnd tók þátt í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í New York í nóvember. Þess ber þó að geta að í flestum tilfellum fara ekki allir nefndarmenn með í ferðirnar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.