Kínverska verslunarsíðan Temu hefur laðað til sín milljónir viðskiptavina, þar á meðal á Íslandi, með lágum verðum og ótrúlegum tilboðum. Birgjar í Kína segja hins vegar að sparnaður neytenda komi niður á þeim.

Fjöldi kínverskra birgja sem sjá um að koma vörum til Temu ruddust inn á skrifstofur fyrirtækisins í Guangzhou í suðurhluta Kína í síðustu viku til að mótmæla.

Myndbönd fóru í dreifingu á kínverskum samfélagsmiðlum sem sýndu kaupmennina krefjast lausna á skrifstofum Temu á meðan lögreglumenn héldu friði. Mótmæli af þessu tagi hafa aukist í Kína meðan þjóðin glímir við hægan hagvöxt og kreppu á fasteignamarkaðnum.

Birgjarnir segja að margir hafi neyðst til að loka verksmiðjum sínum eftir að hafa lent í skuldum. Eitt sem þeim finnst sérstaklega ósanngjarnt er þegar þeim er refsað vegna vandamála sem koma upp eftir sölu þegar Temu finnur galla í vöru eða fær kvörtun frá viðskiptavinum sem krefjast endurgreiðslu.

Talsmaður Temu staðfesti að birgjarnir væru óánægðir með vinnubrögð fyrirtækisins og deila báðar hliðarnar um upphæð sem nemur rúmlega milljón dala. Hann sagði jafnframt að refsingarnar væru nauðsynlegar til að viðhalda góðri þjónustu við viðskiptavini.

„Meirihluti birgja okkar upplifir góðan árangur vegna þessara leiðbeininga og nýtur einnig góðs af aukinni sölu og jákvæðum viðbrögðum viðskiptavina,“ segir talsmaður Temu.