Bandaríska eignarhaldsfélagið L Catterton, sem á þýska sandalaframleiðandann Birkenstock, er að íhuga setja fyrirtækið á markað í september, samkvæmt heimildum Financial Times.
Samkvæmt FT er Birkenstock metið á meira en 8 milljarða Bandaríkjadala sem samsvarar rúmlega 1000 milljörðum íslenskra króna.
Ef slíkt er raunin má búast við því að L Catterton hagnist vel á skráningunni en um er að ræða annað fyrirtækið í eigu eignarhaldsfélagsins sem fer á markað á skömmum tíma.
Fyrr í þessum mánuði sótti snyrtivörurisinn Oddity Tech 400 milljónir dala í hlutafjárútboði en L Catteron átti stóran hlut í félaginu í gegnum tískufyrirtækið LVMH.
Goldman Sachs og JPMorgan eru að sjá um útboðið á Birkenstock en sandalafyrirtækið á rætur að rekja allt til ársins 1774.
Markaðsvirðið tvöfaldast á tveimur árum
L Catterton keypti meirihluta hlutafjár í Birkenstock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðsvirði fyrirtækisins metið á 4 milljarða Bandaríkjadala. Tveir meðlimir í Birkenstock-fjölskyldunni eru enn minnihlutahluthafar í fyrirtækinu.
Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catterton að fyrirtækið ætlaði að sækja fram á Asíumarkaði, sérstaklega í Kína og Indlandi.
Um 3000 starfsmenn vinna hjá Birkenstock og framleiðir fyrirtækið sandala sína í verksmiðjum í Þýskalandi.
Eignarhaldsfyrirtækið L Catterton varð til árið 2016 þegar LVMH og eignarhaldsfyrirtæki Bernhard Arnault fjölskyldunnar sameinuðust bandaríska eignarhaldsfyrirtækinu Catterton.