Banda­ríska eignar­halds­fé­lagið L Catter­ton, sem á þýska sandala­fram­leiðandann Birken­stock, er að í­huga setja fyrir­tækið á markað í septem­ber, sam­kvæmt heimildum Financial Times.

Sam­kvæmt FT er Birken­stock metið á meira en 8 milljarða Banda­ríkja­dala sem sam­svarar rúm­lega 1000 milljörðum ís­lenskra króna.

Ef slíkt er raunin má búast við því að L Catter­ton hagnist vel á skráningunni en um er að ræða annað fyrir­tækið í eigu eignar­halds­fé­lagsins sem fer á markað á skömmum tíma.

Fyrr í þessum mánuði sótti snyrti­vöru­risinn Oddity Tech 400 milljónir dala í hluta­fjár­út­boði en L Catteron átti stóran hlut í fé­laginu í gegnum tískufyrirtækið LVMH.

Gold­man Sachs og JP­Morgan eru að sjá um út­boðið á Birken­stock en sandala­fyrir­tækið á rætur að rekja allt til ársins 1774.

Markaðs­virðið tvö­faldast á tveimur árum

L Catter­ton keypti meiri­hluta hluta­fjár í Birken­stock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðs­virði fyrir­tækisins metið á 4 milljarða Banda­ríkja­dala. Tveir með­limir í Birken­stock-fjöl­skyldunni eru enn minni­hluta­hlut­hafar í fyrir­tækinu.

Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catter­ton að fyrir­tækið ætlaði að sækja fram á Asíu­markaði, sér­stak­lega í Kína og Ind­landi.

Um 3000 starfs­menn vinna hjá Birken­stock og fram­leiðir fyrir­tækið sand­ala sína í verk­smiðjum í Þýska­landi.

Eignar­halds­fyrir­tækið L Catter­ton varð til árið 2016 þegar LVMH og eignar­halds­fyrir­tæki Bern­hard Arnault fjöl­skyldunnar sam­einuðust banda­ríska eignar­halds­fyrir­tækinu Catter­ton.