Birkir Baldvinsson ehf., félag í eigu hjónanna Birkis Baldvinssonar fjárfestis og Guðfinnu Guðnadóttur, er orðinn níundi stærsti einstaki hluthafi Skeljar fjárfestingarfélags með tæplega eins prósents hlut.
Eignarhaldsfélagið á í dag 18,5 milljónir hluta í Skel sem er um 322 milljónir króna að markaðsvirði miðað við dagslokagengi fjárfestingarfélagsins í dag.
Birkir hefur verið meðal tuttugu stærstu hluthafa Skeljar síðan í mars 2024 miðað við mánaðarlega lista Nasdaq.
Eignarhaldsfélagið átti 9,5 milljónir hluta í lok aprílmánaðar en miðað við uppfærðan lista yfir stærstu hluthafa Skeljar bætti Birkir við sig 9 milljónum hluta í þessum mánaði. Miðað við gengi hlutabréfa Skeljar á fyrri helmingi maímánaðar má ætla að kaupverðið hafi verið í kringum 150 milljónir króna.
Stærstu hluthafar Skeljar 5. maí 2025
Í % |
51,59% |
8,38% |
7,22% |
3,10% |
2,30% |
2,13% |
1,15% |
1,06% |
0,98% |
0,88% |
0,84% |
0,78% |
0,72% |
0,68% |
0,66% |
0,66% |
0,54% |
0,53% |
0,50% |
0,47% |
Birkir starfaði á sínum tíma hjá Loftleiðum og Cargolúx í Skotlandi og Lúxemborg. Hann sneri sér síðar að viðskiptum, m.a. í Bandaríkjunum, þar sem flugrekstur hefur komið mjög við sögu, að því er kemur fram í viðtali við Birki í Morgunblaðinu árið 2016. Þess má einnig geta að Birkir var með þeim fyrstu sem fjárfestu í Kringlunni með Pálma Jónssyni í Hagkaupum.
Birkir, sem verður 85 ára í september, sagði í téðu viðtali að hann stundi enn viðskipti sér til afþreyingar og yndisauka, þó hann hafi hægt aðeins á ferðinni undanfarin ár.
„Ég er alltaf tilbúinn að skoða tækifæri, þar sem ég get látið gott af mér leiða. Ég kem til dæmis ennþá að fjárfestingum í flugi enda þótt ég sé ekki að reka flugfélög lengur,” sagði hann við Morgunblaðið árið 2016.
Fram kom að Birkir og Guðfinna hefðu í meira en fimm áratugi búið erlendis en alltaf haldið annað heimili hér á Íslandi.
Árið 2016 var gefin út ævisaga Birkis Allt líf mitt er tilviljun, sem Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og núverandi þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði.