Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka segir að starfsemi bankans verði óbreytt gagnvart starfsfólki og viðskiptavinum þrátt fyrir nýjar tillögur kröfuhafa um að Íslandsbanki verði í eigu ríkisins. Þetta sagði hún í samtali við VB sjónvarp að loknum fundi VÍB í Hörpu í morgun.
Þá ítrekaði hún að tillögurnar byggja á því að nauðasamningar náist og að ef þeir myndu nást þá myndi ekkert gerast fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Bankinn er búinn að vera í söluferli og það mun halda áfram að sögn Birnu en hún lítur á mögulega ríkiseigu bankans sem tímabundið ástand.
Greint var frá því í morgun að kröfuhafahópur Glitnis hefði lagt fram nýjar tillögur um stöðugleikaframlag þar sem m.a. er lagt til að öllum eignarhluti Glitnis í Íslandsbanka verði afsalað til ríkisins. Fallið yrði því frá fyrri tillögum þar sem mikill hvati ríkti fyrir því að bankinn yrði seldur til erlendra aðila.
VB Sjónvarp ræddi við Birnu.