Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hefur óskað eftir og gert samkomulag um starfslok við stjórn bankans, sem jafnframt hefur ráðið Jón Guðna Ómarsson fjármálastjóra í starfið í hennar stað. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér nú fyrir skemmstu.
Ekki kemur fram berum orðum hvenær ákvörðunin tekur gildi, en ætla má að Jón Guðni mun samhliða nýja hlutverkinu áfram starfa sem fjármálastjóri bankans þar til gengið hefur verið frá ráðningu í þá stöðu, sem hann hefur gegnt frá árinu 2011.
„Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Birnu Einarsdóttur fyrir mörg farsæl ár í starfi hjá bankanum. Birna hefur byggt upp sterkan banka og öfluga liðsheild sem við munum áfram búa að,“ er haft eftir Finni Árnasyni, stjórnarformanni bankans í tilkynningunni, en Birna hefur gegnt starfinu frá því í miðju hruninu þegar hún var ráðin í starfið klukkan 1 um nótt þann 15. október 2008.
Ferillinn farsæll að frátöldu útboðinu
„Ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem bankastjóri Íslandsbanka með hagsmuni bankans að leiðarljósi svo ró geti myndast vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.“
Svo hefst yfirlýsing Birnu sem send var fjölmiðlum skömmu eftir að tilkynnt var um starfslokin. Með því segist hún axla ábyrgð á sínum þætti málsins og vísar til óvæginnar umræðu og að ýmsum stjórnmálamönnum hafi verið tíðrætt um afsögn hennar. „Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum.“
Birna segist yfirgefa bankann með miklum trega eftir um 30 ára starfsferil innan hans, sem reynst hafi farsæll að öðru leyti en í því eina verkefni sem sátt bankans við Fjármálaeftirlitið snúi að.
„Starfsævi mín hefur nánast öll verið helguð bankanum“, segir hún og bendir á 150 milljarða króna aukningu eigin fjár bankans og ríflega 110 milljarða króna samanlagðar arðgreiðslur í hennar bankastjóratíð.
„Ég kveð bankann með söknuði en sátt við mitt verk. Ég óska öllu mínu samstarfsfólki góðs gengis og vona innilega að með þessu skapist friður í kringum fyrirtækið og fólkið sem mér þykir svo vænt um.“
Hávær áköll eftir afsögn
Birna hefur ásamt fleiri stjórnendum bankans legið undir miklum þrýstingi um að axla ábyrgð á þeim afglöpum og misbrestum sem tíundaðir eru í ítarlegri sátt bankans við Fjármálaeftirlit seðlabankans sem birt var á mánudagsmorgun og fól í sér tæplega 1,2 milljarða króna sektargreiðslu.
Meðal þeirra sem hafa allt frá því að velta því upp til þess að mælast til þess að Birna og fleiri „íhugi stöðu sína“ eða hreinlega að þau segi af sér, eru formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja.
Þá hefur Bankasýsla ríkisins – sem fer með 42,5% eftirstandandi eignarhlut ríkisins í bankanum – farið fram á að haldinn verði hluthafafundur hjá bankanum eins fljótt og auðið er til að ræða uppljóstranir sáttarinnar.
Eftirlitið taldi brotalamir í stjórnarháttum bankans bera vott um skort á áhættuvitund auk þess sem innra eftirliti hafi verið ábótavant. Meðal þess sem fram kom í sáttinni var að hugsanlegir hagsmunaárekstrar innherja í bankanum sem tóku þátt í útboðinu hafi ekki verið greindir, átta almennir fjárfestar hafi verið ranglega flokkaðir sem fagfjárfestar, viðskiptavinum hafi verið veittar rangar upplýsingar um skilmála útboðsins, símtöl er vörðuðu útboðið hafi ekki verið hljóðrituð og að bankinn hafi veitt umbjóðanda sínum, Bankasýslu ríkisins, villandi upplýsingar.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Yfirlýsing Birnu í heild:
Ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem bankastjóri Íslandsbanka með hagsmuni bankans að leiðarljósi svo ró geti myndast vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands. Með því axla ég ábyrgð á mínum þætti málsins. Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum.
Það er með miklum trega sem ég yfirgef Íslandsbanka enda hef ég starfað hjá bankanum og forverum hans í um 30 ár. Starfsævi mín hefur nánast öll verið helguð bankanum og okkur hefur tekist að byggja upp eitt öflugasta fyrirtæki landsins með einstökum starfsmannahópi. Ég hef eignast marga góða vini bæði í hópi starfsfólks og viðskiptavina. Sátt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands snýr eingöngu að þessu eina verkefni, að öðru leyti hefur ferill minn hjá bankanum verið farsæll.
Undir minni stjórn, sem bankastjóri, hefur eigið fé bankans aukist um næstum 150 milljarða auk þess sem ríflega 110 milljarðar hafa verið greiddir í arð til hluthafa.
Okkur hefur tekist að ná fram fjölda sigra á fjármálamarkaði með mannleg gildi að leiðarljósi. Ég kveð bankann með söknuði en sátt við mitt verk. Ég óska öllu mínu samstarfsfólki góðs gengis og vona innilega að með þessu skapist friður í kringum fyrirtækið og fólkið sem mér þykir svo vænt um.