Ný stjórn var kjörin hjá Kjarnafæði Norðlenska á dögunum eftir kaup Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á kjötvinnslunni. Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, hefur tekið við stjórnarformennsku Kjarnafæðis Norðlenska og Reimar Marteinsson, fulltrúi rekstrarstjórnar KS, tók einnig sæti í stjórninni.
Auk þeirra hefur Birna Einarsdóttir, sem starfaði sem bankastjóri Íslandsbanka á árunum 2008-2023, tekið sæti í stjórn Kjarnafæðis Norðlenska.
Birna hefur tekið af sér ýmis stjórnarstörf að undanförnu. Hún tók við stjórnarformennsku Iceland Seafood International fyrir rúmu ári síðan. Birna er jafnframt stjórnarformaður hjá Verðbréfamiðstöð Íslands og hönnunarfyrirtækinu Fólk Reykjavík.
Ný stjórn Kjarnafæðis Norðlenska:
- Sigurjón Rúnar Rafnsson (formaður)
- Reimar Marteinsson
- Birna Einarsdóttir
Fyrri stjórn:
- Björgólfur Jóhannsson (formaður)
- Eiður Gunnlaugsson
- Gróa Jóhannsdóttir
- Hreinn Gunnlaugsson
- Rúnar Sigurpálsson
Tilkynnt var í júlí að kaupfélagið hefði náð samkomulagi um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska. Eiður Gunnlaugsson og Hreinn Gunnlaugsson, sem áttu sitthvorn 28% hlut, samþykktu báðir að selja hlut sinn til KS.
Þá samþykktu flestir bændur í hluthafahópi Búsældar ehf., sem átti 43% hlut í kjötvinnslunni, að selja sína hluti til KS og eignaðist kaupfélagið því yfir 90% hlut í Kjarnafæði Norðlenska.
RÚV greindi frá því að í lok síðasta mánaðar að KS hefði ákveðið að krefjast innlausnar á því sem eftir væri á grundvelli hlutafjárlaga, þar sem kaupfélagið væri komið með yfir 90% hlut, og eignast því félagið að fullu.