Tilnefningarnefnd Skeljar fjárfestingarfélags hefur lagt til að Birna Ósk Einarsdóttir og Guðni Eiríksson verði kjörin í stjórn félagsins auk þriggja sitjandi stjórnarmanna. Í skýrslu tilnefningarnefndar segir að aðeins liggi fyrir framboð þessara fimm einstaklinga.

Útlit er því fyrir að að Birna Ósk og Guðni taki sæti Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur, sem tekur bráðlega við starfi forstjóra Varðar, og Þórarins Arnars Sævarssonar, meðeiganda fasteignasölunnar RE/MAX, í stjórn Skeljar.

Tilnefningarnefndin leggur til að eftirtalin verði kjörin í stjórnina á aðalfundi þann 9. mars:

  • Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður
  • Sigurður Kristinn Egilsson, varaformaður
  • Nanna Björk Ásgrímsdóttir, stjórnarmaður
  • Birna Ósk Einarsdóttir
  • Guðni Eiríksson

Birna Ósk Einarsdóttir sat í stjórn Skeljar, sem hét þá Skeljungur, á árunum 2015-2022. Hún er framkvæmdastjóri markaðssviðs APM Terminal í Hollandi, dótturfélags Maersk. Birna Ósk starfaði þar áður Icelandair frá árinu 2018, síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs.

Guðni Eiríksson er forstjóri og eigandi Skakkaturns ehf., sem rekur verslanir Eplis. Guðni keypti 5% hlut í Skel í byrjun síðasta árs fyrir tæplega 1,4 milljarða króna. Í nóvember síðastliðnum færði hann eignarhlut sinn í Skel yfir í fjárfestingarfélagið RES 9 og eignaðist við það 31,45% hlut í síðarnefnda félaginu.

Í tilnefningarnefnd Skeljar eru þau Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, Sigurður Kári Árnason, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu og Þórarinn Arnar Sævarsson. Sigurður Kári er formaður nefndarinnar.

Frestur til að bjóða sig fram í stjórnina lýkur fimm dögum fyrir aðalfund Skeljar sem haldinn verður 9. mars í Ballroom salnum á Reykjavík Edition.