Birna Einarsdóttir, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka, hefur stofnað ráðgjafarfyrirtækið B.ein ehf.
Samkvæmt hlutafélagaskráningu er tilgangur félagsins að veita faglega rekstrar, stjórnunar- og markaðslega ráðgjöf.
Birna sagði starfi sínu lausu sem bankastjóri Íslandsbanka í júní í fyrra í kjölfar ákalls um að stjórn og æðstu stjórnendur bankans myndu sæta ábyrgð vegna sektar fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í tengslum við söluferli bankans á hlut ríkisins í bankanum sjálfum.
Birna hafði verið bankastjóri Íslandsbanka frá árinu 2008 en hún hafði starfað samfleytt í bankanum frá árinu 2004 eða í næstum 20 ár.
Birna er viðskiptafræðingur Cand.Oecon frá Háskóla Íslands og er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg og var valin viðskiptafræðingur ársins af Félagi viðskipta- og hagfræðinga árið 2014.
Síðastliðið ár hefur hún tekið sæti í ýmsum stjórnum meðal annars í stjórn Kjarnafæðis, Norðlenska, Verðbréfamiðstöðvar Íslands og Iceland Seafood International.