Lífeyrissjóðurinn Birta hefur skuldbundið sig til að leggja Play til 300 milljónir króna í 2,3 milljarða króna hlutafjáraukningu félagsins sem tilkynnt var um á fimmtudaginn. Þetta kemur fram í svörum Birtu við fyrirspurn Túrista.

Birta, sem er næst stærsti hluthafi Play með 8,5% hlut, skráði sig fyrir tæplega 13% af heildar áskriftarloforðum. Það samsvarar hlutdeild Birtu á móti eignarhlut hinna nítján stærstu hluthafa flugfélagsins sem tóku þátt í hlutafjáraukningunni.

Birta keypti í Play fyrir nærri einn milljarð króna í lokuðu hlutafjárútboði í apríl 2021 þar sem flugfélagið sótti rúma sex milljarða. Fjárfestingin vakti athygli, ekki síst í ljósi þess að Birta tók ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair haustið 2020.

Árangurinn komið „þægilega á óvart“

Play skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn á þriðja ársfjórðungi en gaf þó út á fimmtudaginn að áætlanir um rekstrarhagnað á seinni hluta ársins muni ekki standast. Flugfélagið færði einnig niður tekjuspá sína.

Spurður hvort að verri afkoma hafi komið sér óvart eftir skilaboð og áætlanir forsvarsmanna Play, segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, að fátt komi á óvart á furðulegum tímum sem þessum.

„Til að mynda er erfitt að sjá nákvæmlega fyrir hvernig olíuverð þróast svo dæmi sé tekið. Það hefur komið okkur þægilega á óvart hversu hratt stjórnendum hefur tekist að skipuleggja félagið og byggja það upp,“ hefur Túristi eftir Ólafi.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Soffía Gunnarsdóttir, forstöðumaður eignastýringar hjá Birtu, segir að Play hafi staðið sig mjög vel í þeim uppbyggingarfasa sem var boðaður af stjórnendum flugfélagsins.

„Það má ekki gleymast að félagið hefur verið í rekstri í rúmlega eitt ár og þurft að standa af sér ýmsar áskoranir á þeim tíma sem erfitt var að sjá fyrir. Að auki náði félagið ekki tilætlaðri stærðarhagkvæmni fyrr en fyrir 3 mánuðum síðan. Sem fjárfestir reynir Birta að horfa í gegnum sveiflur einstakra ársfjórðunga hjá þeim félögum sem sjóðurinn er hluthafi í. Ef einstaka árshlutauppgjör gefa það áfram til kynna, þrátt fyrir að vera undir væntingum, að viðskiptamódel viðkomandi félags sé að virka að þá hefur Birta enn trú á fjárfestingunni til lengri tíma litið,“ segir Soffía við Túrista.

Hún bætir við að opinberar tölur gefi góð fyrirheit fyrir íslenska ferðaþjónustu.

20 stærstu hluthafar Play í lok október

Hluthafi Fjöldi hluta í %
Fiskisund ehf. 60.499.994 8,6%
Birta 59.947.641 8,5%
Stoðir hf. 45.000.000 6,4%
Lífsverk 30.502.216 4,3%
Fea ehf. 28.184.920 4,0%
IS EQUUS Hlutabréf 25.415.749 3,6%
Eignarhaldsfélagið Mata ehf. 25.088.659 3,6%
Stefnir Innlend hlutabréf 19.274.319 2,7%
Kvika - Innlend hlutabréf 19.026.877 2,7%
Arion banki hf. 17.622.193 2,5%
Festa 17.000.000 2,4%
VÍS 16.488.897 2,3%
Kvika - IHF 15.940.866 2,3%
Stefnir - ÍS 5 15.665.504 2,2%
Kjartan Páll Guðmundsson 14.703.331 2,1%
IS Hlutabréfasjóðurinn 14.169.365 2,0%
TM tryggingar 13.648.542 1,9%
IS Einkasafn C 11.085.238 1,6%
Alpha hlutabréf 10.662.353 1,5%
Kóngsbakki ehf. 9.478.648 1,3%
Heimild: Nasdaq