Seðlabanki Íslands birti í dag greinargerð um starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands sem var falið að halda utan um og selja eignir sem bankinn fékk í fangið í kjölfar bankahrunsins.
Fram kemur í greinargerðinni að ESÍ, sem var stofnað árið 2009, hafi alls greitt eiganda sínum, Seðlabankanum, 618 milljarða króna eða 127 milljörðum umfram upphaflegt framlag bankans. Að auki greiddi ESÍ 19,4 milljarða í tekjuskatt í ríkissjóðs.
Þessu til viðbótar skiluðu uppgjör og slit dótturfélaga ESÍ ríflega 5,3 ma.kr. til Seðlabankans á tímabilinu 2019 - 2024.
„Upphaflegt markmið ESÍ og síðar dótturfélaga þess var að hámarka virði eignanna með það að leiðarljósi að endurgreiða skuldina við Seðlabankann að fjárhæð 490.614 m.kr. ESÍ gerði gott betur en það.”
Stóð til að birta greinargerðina mun fyrr
Beðið hefur verið eftir birtingu greinargerðarinnar í nokkur ár en upphaflega stóð til að birta hana árið 2018.
Í formála Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra kemur fram að endurheimtuferlinu sem ESÍ sinnti var að mestu lokið þegar hann tók við embættinu. Lokið var við að hnýta lausa enda í tengslum við ESÍ í vor þegar síðasta félaginu í eignasafninu, F fasteignafélagi ehf., var slitið líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.
Það sé því fyrst nú sem forsendur skapist fyrir birtingu greinargerðarinnar.
„Greinargerðin var tekin saman í þeim tilgangi að varpa með heildstæðum hætti ljósi á endurheimtuferlið. Á Seðlabankanum og félögum sem fara með verkefni bankans hvílir rík þagnarskylda og það er svo að upplýsingar um einstaka sérgreind atriði hafa takmarkað gildi þegar heildstætt mat er lagt á ferlið,” segir í formála Ásgeirs.
„Niðurstaðan er mjög hagfelld bæði frá sjónarhóli Seðlabankans sem kröfuhafa og út frá peningapólitískum sjónarmiðum, þ.e. að ná að draga útgefið peningamagn aftur inn í bankann. Stofnun og rekstur ESÍ og tengdra félaga skiluðu tilætluðum árangri og meira til.“