Verð á rafmyntinni bitcoin er komið undir 25 þúsund Bandaríkjadali eftir að hafa lækkað um tæplega 15% um helgina. Útlit er fyrir að dagslokagengi rafmyntarinnar nái sínu lægsta stigi frá því í lok árs 2020. Verð á Etherum, næst stærstu rafmyntinni, hefur sömuleiðis lækkað um 25% frá því á föstudaginn.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að lækkunin sé í samræmi við þróun á öðrum mörkuðum þar sem fjárfestar velta nú fyrir sér mögulegum stýrivaxtahækkunum í Bandaríkjunum vegna vaxandi verðbólgu.
Einn af stærstu lánveitendunum á rafmyntamarkaðnum, Celsius Network, stöðvaði í gær allar úttektir, skiptasamninga og millifærslur á milli aðganga vegna „öfgakenndra markaðsaðstæðna“.