Verð á rafmyntinni Bitcoin fór í fyrsta sinn yfir 100 þúsund dollara í gærkvöldi. Rafmyntin hefur hækkað um meira en 40% frá forsetakosningunum í Bandaríkjunum fyrir einum mánuði síðan.

Geng bitcoin fór upp í 103,85 þúsund dali þegar mest lét í nótt eftir að Donald Trump tilkynnti um að Paul Atkins yrði skipaður stjórnarformaður Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC). Atkins er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt eftirlitið fyrir að hafa beitt sér of harkalega gegn rafmyntageiranum.

Trump hefur ekki farið í grafgötur með stuðning sinn við rafmyntaiðnaðinn og lofað að losa um höft í kringum raf­myntir sam­hliða því að hann vill að hluti af gjald­eyris­forða ríkisins verði í Bitcoin.

Verð á bitcoin stendur í 102,74 þúsund dollurum þegar fréttin er skrifuð.