Greiningaraðilar vestanhafs sem höfðu spáð bjarnarmarkaði í ár eiga sífellt erfiðara með að sannfæra viðskiptavini sína um að samdráttur sé á leiðinni.
SamkvæmtFinancial Times voru þónokkur stór fjármálafyrirtæki sem töldu í ársbyrjun að háir vextir myndu hægja á efnahagsumsvifum og að hlutabréfamarkaðurinn myndi taka dýfu þar sem örfá risa tæknifyrirtæki væru í raun að halda honum uppi.
Úrvalsvísitalan S&P 500 hefur hins vegar hækkað um 16% á árinu. Bankar eins og
Goldman Sachs, Citigroup og UBS hækkuðu í þessum mánuði spár sínar um gengi vísitölunnar á árinu. Gengi S&P hefur aldrei verið hærra en vísitalan stendur í um 5,483 stigum.
Fjárfestar vilja flestir taka þátt í bolamarkaðinum og segir FT að þeir örfáu greiningaraðilar sem halda enn að niðursveiflan sé á leiðinni eigi erfitt með að selja þá sýn.
„Þessi uppsveifla hefur verið erfið og við eigum í vandræðum með að sannfæra fjárfesta um að vera bjarndýr,“ segir Barry Bannister, yfirmaður verðbréfadeildar Stifel í samtali við FT. „Það er hafsjór af peningum sem vilja fjárfesta á markaðinum alveg sama hvaða gengi er,“ bætir Bannister við.
Hann segir fjárfesta hafa fanatíska trú á að markaðurinn muni vera á endalausri uppleið og telur að það sé bóla í gangi. Barrister trúir því að S&P 500 vísitalan muni lækka um 13% frá þessum tímapunkti til ársloka.
Peter Berezin, yfirmaður verðbréfadeildar BCA Research, er á sama máli. „Allir efnahagslegir mælikvarðar benda til þess að hér verði kreppa eftir níu mánuði en viðskiptavinir okkar eru ósammála því.“
„Þessi mýta um mjúka lendingu er búin að ná festu í samfélaginu að ég er sífellt að eiga í rökræðum við viðskiptavini okkar sem segja mér að ég sé of mikið bjarndýr,“ segir Berezin.
Eitt stærsta merki um að greiningaraðilar sem spáðu bjarnarmarkaði séu byrjaðir að kasta inn hvítu handklæði kom í síðustu viku þegar fjárfestingabankinn Evercore ISI uppfærði spá sína fyrir S&P 500 úr 4.750 stigum, sem hefði þýtt lækkun á árinu, í 6.000 stig.
Uppfærð spá fjárfestingabankans gerir núna ráð fyrir að vísitalan muni hækka um 10% til viðbótar fyrir árslok.