Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn hafa tvo valkosti eftir kosningarnar. Annars vegar að mynda borgaralega ríkisstjórn til hægri, sem hann segir skýrt ákall um miðað við niðurstöður kosninganna, og hins vegar að veita nýrri ríkisstjórn kröftuga mótspyrnu í stjórnarandstöðu.

Þetta kemur fram í færslu Bjarna á Facebook.

Bjarni segir að Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki að sætta sig við fylgi rétt undir 20%, þrátt fyrir að hann lýsir stöðu flokksins sem allt annarri og betri en hinna stjórnarflokkanna.

„Markmiðið nú er skýrt, það er að afla flokknum meiri stuðnings. Þetta verður ekki gert með því að falla frá stefnumálum okkar eða hlaupa undir bagga með þeim sem kynnt hafa plan um tugmilljarða útgjaldaaukningu og hærri skatta.“

Bjarni segir stærstu fréttir kosninganna vera að eftirspurn eftir vinstri stjórn hafi ekki reynst vera fyrir hendi. Tveir vinstri flokkar hafi fallið af þingi „og Samfylkingin tapaði fylgi alla baráttuna“.

Þannig hafi niðurstöðurnar ekki verið þau tíðindi sem margir vilji halda fram fyrir Samfylkinguna sem hafi haft 11 ár til að byggja sig upp í stjórnarandstöðu. Allan þann tíma hafi Sjálfstæðisflokkurinn tekið ábyrgð á landsstjórninni.

„Hvernig sem úr spilast er ég stoltur af árangri okkar“

Bjarni sleit ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna um miðjan október síðastliðinn. Hann segir að ákvörðun hans hafi byggt á því að hann sá ekki fram á að frekari árangur myndi nást í því mynstri. „Það var rétt ákvörðun.“

Bjarni segir að fráfarandi ríkisstjórn hafi lagt grunn að hjöðnun verðbólgunnar, sem stuðli að lækkun vaxta. Næsta ríkisstjórn þurfi ekki annað en að framfylgja sömu stefnu með ábyrgri hagstjórn og aðhaldi í ríkisrekstri.

„Hvernig sem úr spilast er ég stoltur af árangri okkar, oftar en ekki í skugga stórra áfalla. Heimsfaraldur, innrásarstríð í Úkraínu með fjölgun hælisleitenda um alla Evrópu að ógleymdum hamförunum í Grindavík. Þrátt fyrir áskoranir höfum við staðið sterk og horfum fram á mikil tækifæri til lífskjarasóknar fyrir landsmenn alla.

Næstu dagar fara í að leggja línurnar í samstarfi við þingflokkinn og annað nánasta samstarfsfólk.“