Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, er aftur komið í hóp stærstu hluthafa Iceland Seafood International (ISI).

Sjávarsýn átti 1,3% hlut í ISI, sem er ríflega 180 milljónir króna að markaðvirði, í lok apríl samkvæmt nýbirtum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins um mánaðamótin. Bjarni er þar með orðinn fimmtándi stærsti hluthafi ISI.

Sjávarsýn bættist við listann í lok mars og átti þá um 30 milljónir hluta í ISI, eða um 0,98% eignarhlut. Fjárfestingafélagið bætti við sig 10 milljónum hluta í apríl og á nú um 1,31% eignarhlut. Miðað við meðalgengi hlutabréfa ISI í mánuðinum má ætla að Sjávarsýn hafi keypt hlutabréf í ISI fyrir tæplega 47 milljónir króna í apríl.

Bjarni starfaði sem forstjóri Iceland Seafood á árunum 2019-2023 og var einn stærsti hluthafi félagsins. Hann lét af störfum sem forstjóri í september 2023 og seldi samhliða 10,8% eignarhlut sinn í ISI til útgerðarfélagsins Brims fyrir 1,6 milljarða króna.

Salan fylgdi í kjölfar rekstrarerfiðleika hjá ISI, einkum hjá breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK sem var selt árið 2023.

Iceland Seafood International birti ársuppgjör í lok febrúar en hagnaður félagsins fyrir skatta af reglulegri starfsemi var yfir afkomuspá og nam 1,1 milljarði króna.

Stærsti hluthafar ISI 30. apríl 2025

Hluthafi Eignarhlutur Í %
FISK-Seafood ehf. 362.906.903 11,84
Brim hf. 350.246.206 11,43
Jakob Valgeir ehf. 344.961.200 11,26
Nesfiskur ehf. 322.304.386 10,52
Birta lífeyrissjóður 182.879.524 5,97
Lífsverk lífeyrissjóður 177.719.261 5,80
Stapi lífeyrissjóður 159.247.091 5,20
LSR A-deild 122.310.000 3,99
Sjóvá 92.824.263 3,03
Frjálsi lífeyrissjóður 87.291.795 2,85
VÍS tryggingar hf. 87.200.000 2,85
Kvika banki hf. 43.332.310 1,41
Íslandsbanki hf. 42.679.126 1,39
Ecock Holdings Ltd. 41.236.724 1,35
Sjávarsýn ehf. 40.000.000 1,31
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 31.518.518 1,03
IS EQUUS Hlutabréf 31.244.678 1,02
Akta HL1 30.465.482 0,99
LSR B-deild 28.690.000 0,94
GPG Seafood ehf. 25.825.754 0,84
Heimild: Nasdaq Iceland