Þegar horft er til þessara þátta, eins og hvort það eigi að halda hluthafafund eða ekki og hvernig málum skuli háttað varðandi umræðu og framgang þá held ég að við eigum öll að líta í eigin barm og hugsa svolítið hvernig sú umgjörð er sem við búum við,“ sagði Bjarni Ármannsson, einn stærsti hluthafi Festi, en hann tók til máls að loknu stjórnarkjöri á hluthafafundi félagsins í dag.
Ólíkar skoðanir voru meðal stærstu hluthafanna hvort þörf hafi verið á stjórnarkjöri rúmum fjórum mánuðum eftir aðalfund félagsins. Bjarni, sem á 1,3% í Festi, sagðist vera meðal þeirra hluthafa sem vildu fá fund til að ræða mál er varða stjórn félagsins og það sem undan er gengið. Hann virtist hugsi yfir umgjörðinni í kringum stjórnarkjör félagsins og þátt tilnefningarnefndar.
„Þetta er sá lýðræðislegi farvegur sem að hlutafélagalögin og okkar umgjörð segir til um, að ef að aðilum finnst að það séu mismunandi leiðir að fara þá er það hluthafanna að útkljá slíkt. Það höfum við gert hér í dag með því að meðhöndla það dagskrárefni sem hér var á ferðinni sem var kosning stjórnar,“ sagði Bjarni.
Sjá einnig: Stærstu hluthafarnir ósammála
Fyrir aðalfund Festi í mars buðu 22 einstaklingar sig fram í stjórn félagins. Á endanum var þó sjálfkjörið í stjórnina eftir að allir aðrir en þeir sem tilnefningarnefnd félagsins lagði til drógu framboð sitt til baka. Á hluthafafundinum í dag, sem stjórnin boðaði eftir gagnrýni um hvernig staðið var að uppsögn forstjórans, sóttust þrettán frambjóðendur eftir fimm sætum í stjórn.
„Ég fagna því mjög hvað einstaklingar sem eru mjög frambærilegir sýna félaginu mikinn áhuga. Það er auðvitað bara til tákns um þá forystu sem félagið er í og þá forystutilburði sem það hefur sýnt á undanförnum árum,“ sagði Bjarni.
Hann viðraði aftur andstöðu sinni við að tilnefningarnefnd gætu sjálfar lagt fram tillögur að stjórnarmönnum. Einar Sigurðsson fjárfestir hafði fyrr á fundinum einnig lýst yfir óánægju með fyrirkomulag tilnefningarnefndarinnar. Einar sagðist ætla að leggja fram tillögu fyrir næsta hluthafafund Festi, annars vegar um að í tilnefningarnefnd sitji ekki stjórnarmaður og hins vegar nefndin tilnefni fleiri en fimm í stjórn líkt og hún gerði fyrir fundinn í dag.
„Beint samtal milli hluthafanna sjálfra sem og hluthafa við félagið er mikilvægt. Það er hlutverk okkar hluthafa líka að standa vörð um félagið og efla hag þess til framtíðar litið,“ sagði Bjarni.
„Það er gott að við héldum þennan fund. Við höfum núna kosið stjórn og leitt þetta mál til lykta. Vonandi verður félagið bara áfram í þeirri forystu sem það hefur verið,“ sagði Bjarni að lokum.