Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, hagnaðist um 2 milljarða króna eftir skatta í fyrra samanborið við 1,2 milljarða hagnað árið 2023.

Hrein ávöxtun verðbréfa var jákvæð um rúmlega 1,5 milljarða króna. Það kann m.a. skýrast af því að hlutabréfaverð Skaga, móðurfélags VÍS og Fossa, hækkaði um 27% í fyrra en Sjávarsýn er næst stærsti hluthafi félagsins með 8,9% hlut sem er tæplega 3,3 milljarðar króna að markaðsvirði.

Sjávarsýn á meðal annars allt hlutafé Gasfélagsins, 92% hlut í hreinlætisvörusölunni Tandri, 51% hlut í þjónustu- og tæknifyrirtækinu Fálkanum-Ísmar, 55% hlut í Kemi og 31% hlut í S4S ehf., sem rekur m.a. verslanir Steinar Waage og Ellingsen.

Sjávarsýn keypti í lok síðasta árs 99,5% hlut í Kuldabola ehf. sem rekur frystivöruhótel sem þjónar matvælaframleiðendum jafnt sem innflytjendum og útflytjendum. Eignarhluturinn í Kuldabola var bókfærður á 779 milljónir króna í lok síðasta árs.

Bjarni er einnig stærsti eigandi TC Holding, eiganda flutningafélagsins Torcargo sem er m.a. með áætlunarsiglingar til og frá Þorlákshöfn.

Þá greindi Viðskiptablaðið frá því að Sjávarsýn hefði keypt yfir 90% hlut í Köfunarþjónustunni.

Eignir Sjávarsýnar voru bókfærðar á 14 milljarða króna í árslok 2024. Þar af voru eignarhlutir í dóttur- og hlutdeildarfélögum 4,9 milljarðar, eignarhlutir í öðrum félögum 5,3 milljarðar og skuldabréf og aðrar langtímakröfur 1,5 milljarðar. Eigið fé félagsins var um 13,6 milljarðar króna.

Lykiltölur / Sjávarsýn ehf.

2024 2023
Hrein ávöxtun verðbréfa 1.562 573
Áhrif dóttur- og hlutdeildarf. 585 670
Afkoma 2.029 1.227
Eignir 14.128 11.694
Eigið fé 13.560 11.075
- í milljónum króna