Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, hagnaðist um 3 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 1,6 milljarða hagnað árið 2019. Afkoman skýrist að stærstum hluta af 2,5 milljarða hreinni ávöxtun verðbréfa. Félagið hyggst ekki greiða út arð í ár, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.
„Starfsemi félagsins gekk almennt vel á árinu og endurspeglar hækkanir á verðbréfamörkuðum á síðari hluta ársins. Í heildina gekk félögum í eigu Sjávarsýnar vel á árinu og voru því áhrif af Covid-19 og samkomutakmarkanir ekki umtalsverð á félagið eða þau félög sem Sjávarsýn kemur að,“ segir í skýrslu stjórnar.
Eignir voru bókfærðar á 12,5 milljarða í lok síðasta árs og eigið fé var 11,8 milljarðar. Skráð hlutabréf félagsins voru bókfærð á 7,4 milljarða króna í lok síðasta árs og erlend hlutabréf á 166 milljónir króna.
Sjávarsýn er stærsti hluthafi Icelandic Seafood International með 10,8% hlut en Bjarni er forstjóri félagsins. Sjávarsýn er einnig fimmti stærsti hluthafi VÍS með 7% hlut og fer auk þess með 1% hlut í Festi. Taka skal þó fram að hlutabréf þessara þriggja félaga hafa lækkað í verði í ár.
Sjá einnig: Keyptu Samey á 538 milljónir
Bókfært verð dóttur- og hlutdeildarfélaga nam 2,9 milljörðum í lok síðasta árs og hlutdeild Sjávarsýnar í afkomu þeirra var 442 milljónir. Sjávarsýn á allt hlutafé í Gasfélaginu ehf. og 92% í hreinlætisvörusalanum Tandri. Sjávarsýn fer einnig með fjórðungshlut í PPH sem keypti Domino‘s á Íslandi í fyrra. Meðal annarra félaga sem Sjávarsýn á stóran hlut í eru Fáfnir offshore, skipafélagið Cargow og Samey Robotics.