Bjarni Benediktsson hefur í fjórgang þurfta að berjast fyrir formannsembættinu í Sjálfstæðisflokknum. Þar af hefur hann þrisvar sinnum fengið móttframboð sem formaður.
Bjarni sigraði Guðlaug Þór Þórðarson örugglega í formannskjöri í dag. Guðlaugur náði svipuðum árangri og Kristján Þór árið 2009 en nokkuð lakari en Hanna Birna Kristjánsdóttir árið 2011.
Fyrst kjörinn árið 2009
Bjarni var kjörinn formaður í fyrsta sinn árið 2009 þegar Geir H. Haarde hætti. Kristján Þór Júlíusson bauð sig einnig fram. Bjarni sigraði með 990 atkvæðum eða 58% á móti 688 atkvæðum sem Kristján hlaut, eða 40,4%. Alls voru 1.705 atkvæði greidd en auðir seðlar voru 5 og ógildir 2.
Óvænt framboð Péturs
Árið 2010 bauð Pétur Blöndal sig fram gegn Bjarna. Bjarni fékk 573 atkvæði eða um 62%. Pétur fékk 281 atkvæði eða 30,3%. Framboð Péturs var óvænt en hann lýsti yfir framboði sama dag og kosningin fór fram. Vangaveltur um framboðið hófust hins vegar degi fyrr.
Hanna næst því að fella Bjarna - en þó fjarri því
Árið 2011 bauð Hanna Birna Kristjánsdóttir sig fram gegn Bjarna. Bjarni sigraði með 55% atkvæða eða 727 atkvæðum. Hanna Birna fékk 577 atkvæði eða 43,6%. Greidd atkvæði voru 1.323 en 10 atkvæði voru auð eða ógild.
Árangur Guðlaugs Þórs svipaður og Kristjáns Þórs
Í dag sigraði Bjarni formannskosninguna og fékk 1.010 atkvæði af 1.700 gildum atkvæðum. Alls voru greidd 1.712 atkvæði. Guðlaugur Þór Þórðarson fékk 687 atkvæði. Bjarni fékk því 59,5% atkvæða en Guðlaugur Þór 40,4%. Níu voru auð eða ógild og aðrir fengu þrjú atkvæði.