Bjarni Benediktsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á mér í formannskjöri á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur jafnframt ákveðið að taka ekki sæti á því þingi sem hefst síðar í mánuðinum.
Þetta kemur fram í nýrri færslu Bjarna, sem hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009, á Facebook. Hann hefur setið þingi frá árinu 2003 og segist skilja sáttur við sín störf sem þingmaður í tæplega 22 ár.
„Næstu vikur ætla ég að taka mér frí en hyggst svo taka mín síðustu skref á pólitíska sviðinu og kveðja vini mína í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum sem framundan er, þar sem blásið verður til sóknar fyrir þjóðlífið allt,“ segir Bjarni.
Bjarni segist hafa átt síðustu daga með sínum nánustu til að líta yfir farinn veg, ræða og hugsa um framtíðina.
„Ég finn að þetta er rétti tíminn til að breyta til. Það er ekkert launungarmál að ég mun njóta þess að hafa meiri tíma í framtíðinni með fjölskyldunni, sem hefur farið stækkandi, og til að sinna öðrum hugðarefnum.“
„Rétt að eftirláta öðrum að móta það starf“
Bjarni segir að ný tækifæri opnist fyrir Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu. Flokkurinn eigi að nýta kjörtímabilið til að styrkja samband sitt við hinn almenna kjósanda og skerpa á forgangsmálum.
„Á komandi landsfundi verður kosin forysta sem fær það hlutverk að móta áherslur kjörtímabilsins og vinna að góðum sigri flokksins í næstu kosningum. Ég finn að það er rétt ákvörðun að eftirláta öðrum að móta það starf.“
Nýafstaðnar kosningar hafi skilað Sjálfstæðisflokknum næst flestum þingmönnum á Alþingi, þar sem hann var rúmu prósentustigi minni en sá stærsti.
„Stærstu tveir flokkarnir eru báðir talsvert frá sínum fyrri hæðum, og sögulega eru úrslitin ekki nægilega góð fyrir okkur sjálfstæðismenn. En eftir langa setu í ríkisstjórn, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók ábyrgð á stjórn landsmálanna meðan aðrir reyndu að byggja sig upp í stjórnarandstöðu, vann flokkurinn ágætan varnarsigur.“
Árangurinn farið fram úr sínum björtustu vonum
Hvað varðar starf sitt og flokksins á síðustu árum segir Bjarni að árangurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð frá því að hann tók sæti í ríkisstjórn að nýju árið 2013 hafi farið fram úr sínum björtustu vonum.
„Við búum í góðu þjóðfélagi, höfum staðið af okkur storma og áföll og erum í mikilli sókn. Lífskjör hafa vaxið stórum skrefum. Við getum sagt að hvergi sé betra að búa en á Íslandi. Staða heimilanna, atvinnulífsins og hins opinbera er öfundsverð í alþjóðlegum samanburði. Nýjum fyrirtækjum og spennandi störfum fjölgar með hverju árinu, vegna þess að fólk hefur tækifæri til að freista gæfunnar á sínum forsendum.
Grunnurinn að þessum árangri felst í trú á fólkinu í landinu, tækifærum þess til að láta til sín taka og stefnu um að skapa megi mikil verðmæti fyrir landsmenn alla ef ríkið styður við samfélagið með réttum hætti og einkaframtakið fær að njóta sín. Þessar áherslur ruddu brautina að miklu vaxtarskeiði, landsmönnum hefur fjölgað, mikil ný útflutningsverðmæti orðið til og grunnur að sterkara velferðarkerfi var lagður. Þetta er sjálfstæðisstefnan í hnotskurn.“