Fjármálaráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi sem hefur að geyma almennar reglur um hvernig slíta megi tilteknum ógjaldfærum opinberum aðilum en með frumvarpinu hyggst ráðuneytið heimila slit á ÍL-sjóði. Frestur til umsagnar í samráðsgátt er þrjár vikur.

„Opinberar stofnanir sem njóta ríkisábyrgðar verða ekki teknar til gjaldþrotaskipta nema mælt fyrir um það í lögum. Því þarf sérstaka lagaheimild til að koma fram slitum á ÍL-sjóði og uppgjöri skulda hans. Slík lagaheimild er ekki til staðar sem stendur og er helsti tilgangur með frumvarpsdrögunum að bæta þar úr,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn lög um hvernig ljúka megi tilvist slíkra opinberra aðila með slitum „sem um margt svipar til gjaldþrotaskipta en markast þó af því að þeir opinberu aðilar sem reglurnar eiga að ná til eru þannig settir að ríkið eða sveitarfélag ber einfalda ábyrgð á skuldbindingum þeirra“.

„Með frumvarpinu er gagnstætt þessu lagt til að úr verði eitt heildstætt ferli. Þetta ferli myndi annars vegar felast í því að fram færi slitameðferð sem um margt væri hliðstæð gjaldþrotaskiptum að því leyti að dómsúrlausn gengi um upphaf slita, sérstök slitastjórn yrði skipuð til að annast þau, kallað yrði eftir kröfum lánardrottna með innköllun, þeir myndu lýsa kröfum sínum og afstaða yrði tekin til þess hvort kröfurnar yrðu viðurkenndar, eftir atvikum með dómsúrlausn eftir reglum 5. þáttar laga nr. 21/1991. […]

Hins vegar fælist í þessu ferli sú sérstaða í samanburði við gjaldþrotaskipti að kröfur lánardrottna myndu ekki einvörðungu beinast að opinbera aðilanum, heldur um leið að ríkinu eða viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli einfaldrar ábyrgðar þess á kröfunum. Að öðru jöfnu myndi viðurkenning á lýstri kröfu við slitin fela um leið í sér viðurkenningu á ábyrgðarkröfunni.“

Í 7.gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði skaðabótaregla svo að fyrir liggi hvernig með skuli fara ef kröfuhafi telur sig hafa orðið fyrir tjóni af þeim ástæðum. Þótt efni 7. gr. lúti að tjóni sem kröfuhafi telur sig verða fyrir af sérstökum ástæðum, vegna tekjutaps í framtíðinni, eru reglur greinarinnar að mestu leyti í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.

Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármálaráðherra, kynnti hugmyndir um slit ÍL-sjóðs í október 2022 samhliða birtingu skýrslu um stöðu sjóðsins.

Fjármálaráðuneytið sóttist eftir samkomulagi um uppgjör á skuldum sjóðsins við stærstu kröfuhafa sjóðsins, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir. Hópur tuttugu lífeyrissjóða lýsti því hins vegar yfir í lok febrúar að þeir teldu ekki forsendur fyrir samningaviðræður við ráðuneytið að óbreyttu.

Bjarni lagði í kjölfarið fram áformaskjal um framlagningu lagafrumvarps sem heimili slit og uppgjör ÍL-sjóðs. Framangreindur hópur lífeyrissjóða birti harðorða umsögn um áformaskjalið þar sem sjóðirnir sögðu fyrirhugaða löggjöf fela í sér eignanám, hún væri andstæð stjórnarskrá og til þess fallin að baka íslenska ríkinu skaðabótaskyldu.