Bjarni Benediktsson hefur ákveðið að virða álit umboðsmanns Alþingis og stíga til hliðar sem fjármála- og efnahagsráðherra. Hann segir að sér hafi brugðið við að lesa niðurstöðuna í áliti umboðsmanns um hæfi hans í þeim efnum og hefur ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra. Honum sé í reynd ókleift að starfa áfram í þessu umhverfi.
Maður verður að horfast í augu við pólitískan veruleika.
Bjarni gat ekki svarað því hvaða þýðingu þetta hefði fyrir stjórnarsamstarfið.
„Við höfum ekki boðað til ríkisstjórnarfundar vegna þessa. Ég tel að eðlilegt næsta skref sé að ég eigi samtal við mína samstarfsmenn. Við erum þrír oddvitar í ríkisstjórninni, sem berum ábyrgð á stjórnarsáttmálunum, og ég hef skynjað mikinn vilja til þess til þessa að halda verkefnunum lifandi. Það verður auðvitað að meta hvort það er raunhæft. Maður verður að horfast í augu við pólitískan veruleika."
„Ég verð að segja að mér er brugðið við að lesa þessa niðurstöðu. Ég er miður mín eftir að hafa séð þá niðurstöðu að mér hafi brostið hæfi. Ég ætla þó að byrja á því að segja að ég hafi algjörlega hreina samvisku í þessu máli. Mér finnst margt í þessu áliti orka tvímælis,“ sagði Bjarni.
„Margt sem þarna segir er í beinni andstöðu við þær ráðleggingar sem ég hef fengið sem ráðherra og í lögfræðiálitum,“ sagði Bjarni.
Í álitinu segir umboðsmaður að Bjarna hafi brostið hæfi við ákvörðun sína 22. mars 2022 þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslu ríkisins um söluna á 22,5% hlut í Íslandsbanka, þar sem faðir hans Benedikt Sveinsson, keypti 0,1042% hlut í bankanum.
Bjarni sagði það óumdeilt í málinu að hann hafði engar upplýsingar um þátttöku félags föður síns og það sé ekki dregið í efa í áliti umboðsmanns.
„Þar sem ég hafði ekki upplýsingar um þetta mál kemur það mér mjög á óvart að niðurstaðan er sú að mér hafi brostið hæfi. Þetta á ekki síst við í ljósi þess um hvernig sölunni var háttað,“ sagði Bjarni á fundinum.
„Ég til mikilvægt að virða álit umboðsmanns Alþingis,“ sagði Bjarni sem hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann ætli að sitja áfram að þingi.
Hann sagði að þó hann hafi sínar skoðanir á álitinu og röksemdum þá ber að virða álitið.
„Þessa niðurstöðu hyggst ég virði og mér er í reynd ókleift að starfa sem fjármála og efnahagsráðherra í undirbúning í sölu á frekari eignarhlutum í Íslandsbanka,“ sagði Bjarni.
„Það er af þessari ástæðu sem ég hef ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra.“
Hann tilkynnir nú um afsögn sína en formlegt ferli fer núna í gang þar sem hann biðst lausnar.
Umboðsmaður taldi ekki fært að líta svo á að með ákvörðun sinni um að fallast á tillögu Bankasýslunnar um söluna hefði ráðherra samþykkt tilboð einstakra kaupenda eða að með henni hefðu komist á samningar við þá og aðilaskipti að hlutum.
Hins vegar var bent á að í ákvörðuninni hefði falist undanfari ráðstöfunar hlutanna og hún hefði þar af leiðandi verið þáttur í einkaréttarlegum lögskiptum gagnvart kaupendum. Yrði því að leggja til grundvallar að reglur stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi hefðu gilt.
Beinir umboðsmaður því til Bjarna að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga við endurskoðun á reglum um sölu ríkisins á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Þá beindi umboðsmaður því til ráðherra að hafa sjónarmiðin í huga við sölu á frekari eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum án tillits til þeirrar endurskoðunar.