Tilnefningarnefnd Eikar hefur lagt til að Bjarni Kristján Þorvarðarson og Reynir Sævarsson verði kjörnir í stjórn fasteignafélagsins í stað Eyjólfs Árna Rafnssonar og Kristínar Friðgeirsdóttur sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Alls barst nefndinni þrettán ný framboð, auk framboðs þriggja sitjandi stjórnarmanna.

Í skýrslu tilnefningarnefndarinnar kemur fram að af þeim þrettán sem buðu sig fram og sitja ekki þegar í stjórn drógu allir sem ekki voru tilnefndir framboð sitt til baka. Nefndin hafði tekið viðtöl við sex einstaklinga vegna stjórnarsætanna tveggja.

Bjarni Kristján Þorvarðarson sat í stjórn Eikar á árunum 2019-2021 en hlaut ekki kjör í margfeldiskosningu á síðasta aðalfundi félagsins. Bjarni er starfandi forstjóri Matorku. Þar áður var hann forstjóri Coripharma en hann gegnir stjórnarformennsku hjá lyfjafyrirtækinu í dag. Árin 2004-2017 gegndi hann stöðu forstjóra hjá Hibernia Networks.

„Bjarni hefur mikla stjórnunar- og stjórnarreynslu. Hann hefur einnig þekkingu og reynslu af fjárfestingamarkaði, almennum rekstri og haldgóða þekkingu á áhættustýringu og innra eftirliti fyrirtækja. Bjarni hefur að auki mikla reynslu af breytingastjórn, rekstri og stjórnarháttum,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

Reynir Sævarsson er byggingarverkfræðingur hjá Eflu en hann er er titlaður sem fyrirliði umhverfisteymis verkfræðistofunnar. Reynir hefur setið í stjórn Eflu frá 2015 og gegnt stjórnarformennsku frá árinu 2020.  Þá situr hann í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og er formaður ráðgjafarverkfræðinga.

„Reynir hefur góða reynslu af stjórnarsetu, stjórnarháttum, breytingastjórn og almennum rekstri. Hann hefur mjög góða þekkingu af byggingariðnaði, fasteignamarkaði og uppbyggingu innviða á Íslandi. Reynir hefur þar að auki þekkingu og reynslu af umhverfismálum og sjálfbærni á byggingamarkaði umfram aðra sem buðu sig fram til stjórnarsetu,“ segir í rökstuðningi tilnefningarnefndar.

Nefndin leggur því til að stjórn Eikar verði skipuð af:

  • Guðrúnu Bergsteinsdóttur, núverandi varaformanni stjórnar
  • Hersi Sigurgeirssyni
  • Ragnheiði H. Harðardóttur
  • Bjarna Kristjáni Þorvarðarsyni
  • Reyni Sævarssyni

Í tilnefningarnefnd Eikar sitja Drífa Sigurðardóttir, Ingólfur Bender og Þorkell Erlingsson. Drífa er formaður nefndarinnar.