„Evrópusambandið álítur sjálfstæði okkar vera vesen,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við breska blaðið Telegraph , og lítur hann á að yfirvöld í Brussel séu að taka sér sífellt meiri völd í gegnum EES. Segir það hneykslanlegt ef sambandið telur að Íslendingar samþykki eitthvað annað en núverandi tveggja stoða kerfi í gegnum EES.
Íslensk stjórnvöld eru sögð óhress með hve þrýstingur Evrópusambandsins sé sífellt að aukast á að hér verði teknar upp síauknar viðbótarreglur, nú síðast vegna orkumála og meðferðar matvælaeftirlits. Sagði hann stjórnvöld í Evrópusambandi líta á sjálfstæði landsins sem sífellt meira vesen, en hann segir í viðtalinu að dýpri samþætting allra hluta innan sambandsins sé að gera Íslandi erfitt fyrir að gæta þjóðarhagsmuna sinna.
Sagt vera víti til varnaðar fyrir Bretland
Í greininni er bent á hvað gæti fylgt fyrir Bretland ef ekki verði gengið alla leið í útgöngu Bretlands út úr Evrópusambandinu en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa stjórnvöld samþykkt að eftir að tveggja ára útgönguferlinu líkur taki við millibilssamkomulag þangað til endanlegt samkomulag um samskipti ESB og Bretlands náist.
„Þeir sem vilja aukna aðlögun að ESB reglunum eru að herða róðurinn og ef af því verður mun verða enn minna umburðarlyndi fyrir sérstökum lausnum innan evrópska efnahagssvæðisins,“ sagði Bjarni meðal annars í viðtalinu.
„Mjög nýlegt dæmi er hrátt kjöt og reglur um frjálst flæði á vörum. Lína ESB er að sama reglan eigi að gilda fyrir alla og ekki sérreglur í neinum tilvikum. En við erum sértækt dæmi, þar sem á Íslandi er engin salmonelluveira, það er varla hægt að tala um það sem vandamál hér, eins og það er í aðildarríkjum sambandsins. Ef við bætist sýklalyf, ég meina þau eru varla notuð á Íslandi, í samanburði við alifuglarækt á Spáni.
Vaxandi áhyggjur af skilningsleysi
Sagði Bjarni að það væru vaxandi áhyggjur heima á Íslandi fyrir því að Evrópusambandið sýndi því ekki skilning af hverju Íslendingar væru ekki tilbúnir að láta tilleiðast og fylkja sér með verkefninu um sameinaða Evrópu.
„Þeir [ESB] eru nánast að sýna dónaskap, það er eins og þetta sé bara vesen í þeirra augum sem þeir spyrja hvenær við munum losa okkur við. „Hvers vegna geta ekki allir bara orðið meðlimir að fullu og öllu leiti?“ Ég get svo sem skilið þá út frá stjórnmálalegu sjónarmiði, en staðan er einfaldlega sú að ef til staðar er alþjóðasamningur [eins og við höfum] þá þarf að virða hann, það er einfaldlega þannig.“
Ummælin eru sögð koma í kjölfar þess að Alþingi Íslendinga hefur heitið að endurskoða EES samninginn vegna þess að áhyggjur eru að aukast yfir því að honum sé beitt til að auka áhrif ESB á innri málefni landsins.
Í greininni er loks skýrt hvernig samningurinn veiti markaðsaðgang en einnig frjálst flæði vinnuafls. Lögfræðileg álitamál séu útkljáð af EFTA dómstólnum sem sé sjálfstæður þó hann horfi oftsinnis til úrskurða Evrópudómstólsins.
ACER og orkumálapakki ESB umdeilt
Síðan er nefnt hve þriðji orkumálapakkinn svokallaði hafi verið umdeildur hér á landi og deildar meiningar um áhrif hans eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um og sjá má neðst í fréttinni. Segir í greininni að íslensk stjórnvöld hafi áhyggjur af því að með tilkomu orkumálastofnunarinnar, ACER, verði stjórn Íslendinga sjálfra yfir eigin orkuauðlindum gerð veikari og reglugerðaryfirvöldum í ESB færð aukin völd.
„Þátttaka okkar í innri markaðnum er byggð á tveggja stoða kerfi,“ segir Bjarni og vísar þá í að samið er um lagaumgjörðina á grundvelli EFTA í stað þess að samþykkja beina stjórn frá ESB.
Hneykslanleg framkoma ESB
„Sú staðreynd að ESB heldur að við myndum samþykkja nokkuð annað er hreinlega hneykslanlegt. En það er verið að reyna þetta.“
Þetta hefur að sögn Bjarna gert það að verkum að erfitt hefur verið að viðhalda og tryggja sjálfstæði þjóðarinnar í öllum málum, þó landið sé ekki aðildarríki að ESB. Þrátt fyrir þetta segir hann aðildina hafa verið virkilega vel heppnaða því hún hafi á sama tíma tryggt að ríkið hafi getað gert fríverslunarsamninga við ríki utan ESB sem væri ekki hægt ef við værum í ESB.
„Við erum fyrsta Evrópulandið sem hefur gert fríverslunarsamning við Kína, þrátt fyrir smæð okkar,“ sagði Bjarni og sagði að það væri gegn öllum væntingum þeirra sem teldu að ESB gæti það fyrst í krafti stærðar sinnar.
„Það er augljóslega einfaldara að ná samning við eina þjóð, það þarf ekki að gera neinar málamiðlanir innan raða annars samningaaðilans áður en rætt er við hinn aðilann.“
Loks er sagt frá því að bresk stjórnvöld hafi nú þegar útilokað að fara sömu leið og Ísland í viðræðunum um stöðuna eftir að útgangan úr ESB er orðin að veruleika, þó þingnefndir hafi nefnt það sem möguleika sem hægt væri að horfa til ef ekki næðust góðir samningar.
Fleiri fréttir um ACER og orkumálapakka ESB:
- 21. apríl 2018 - Orkupakkinn ekki fullveldisframsal
- 15. apríl 2018 - Segir rangt að ekki séu hagsmunir í húfi
- 4. apríl 2018 - Reynt verði á fullveldisréttinn í EES
- 1. apríl 2018 - Mikil óvissa ef Alþingi segir nei
- 31. mars 2018 - Orkuhagsmunir Íslands ekki í húfi
- 22. mars 2018 - Stórþingið samþykkir ACER
Pistlar um ACER og orkumálapakka ESB:
- 15. apríl 2018 - Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi